150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:56]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Við ræðum stórmerkilegt mál. Ég get vel tekið undir þau orð sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði rétt áðan, að þetta mál væri geggjað. Það var geggjað meðan það var í hv. velferðarnefnd. Ég gagnrýni hins vegar það sem hófst eftir að við afgreiddum málið út úr nefndinni vegna þess að þá fyrst hófst ballið. Ég vil leyfa mér að segja að þetta sé nærri því í besta falli léleg redding meiri hlutans. Þetta er orðið að leikhúsi fáránleikans. Það er alveg ljóst að allir hér vilja fá fæðingarorlof í 12 mánuði. Ég hef talað fyrir því ásamt fleirum í mínum þingflokki að segja 0, 0, 12. Ég vona að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir skilji það.

Ég verð að gagnrýna þau óvönduðu vinnubrögð sem meiri hlutinn sýnir hér á aðeins nokkrum klukkustundum. Við í Miðflokknum styðjum 12 mánaða fæðingarorlof. Það sem hefur líka gleymst í þessari umræðu í dag eru hagsmunir og réttindi barnsins. Þetta snýr ekki aðeins að því að við getum skipt einhverju niður í fjórir, fjórir, tveir; fjórir, fjórir, fjórir; fimm, fimm, tveir o.s.frv. Við eigum að taka okkur tak, samþykkja 12 mánuði og sjá til þess að þetta mál komi aftur inn í þingsal þegar það er tilbúið þannig að framhaldið fái rétta og þinglega meðferð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)