151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Mig langar aðeins að nefna að það væri mjög gott ef þingið gæti fengið skýrsluna í hendur kvöldið fyrir umræðu af þessu tagi til þess að þingmenn gætu kynnt sér efni hennar áður og verið mögulega betur búnir undir umræðu eins og þessa. Ég held jafnvel að það hefði verið gott fyrir hv. þingmann sem var hér á undan, einmitt vegna spurninganna. Við erum svolítið gjörn á það í stjórnarandstöðu að reyna að brúa bilið milli stjórnarflokkanna þessi misserin af því að það virðist vera sem ekki sé gott samtal á milli einstakra flokka. Það kemur einmitt fram í minnisblaði til hv. velferðarnefndar að búið sé að semja um bóluefni fyrir 538.000 manns og þar af hafi verið samið um bóluefni fyrir 115.000 manns í október. Það væri því gott ef við í stjórnarandstöðunni þyrftum ekki að vera að reyna að miðla málum hér á milli en ég tek það fúslega að mér, því að ég held að bólusetningar séu lykilatriði í uppbyggingu okkar hér á landi, efnahagsuppbyggingu og samfélagsuppbyggingu.

Ég er bjartsýn manneskja og tel að við munum ná að bólusetja þorra þjóðarinnar og ætla bara að treysta því, þótt nýjustu tíðindi séu pínulítið ógnvekjandi um mikinn drátt á afhendingu bóluefna frá AstraZeneca. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í þetta, hvernig þau sjái fyrir sér niðurtröppun sóttvarna þegar búið verður að bólusetja, segjum 40–50% þjóðarinnar, með tilliti til meðalhófs. Hvernig sjá stjórnvöld, sem ég geri ráð fyrir að séu byrjuð að undirbúa sig, að hægt verði að tryggja meðalhóf gagnvart almenningi og líka sóttvarnir þess hluta sem ekki hefur fengið bóluefni þegar búið verður að bólusetja þetta stóran hóp og auðvitað allra viðkvæmasta hópinn fyrst.