151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin en hún svaraði mér ekki í sambandi við landamærin. Ég hef mestar áhyggjur af því vegna þess að mesta hættan er að þetta komi inn á landamærum núna. Við erum búin að ná svo góðum árangri og ég segi að það sé fórnanna virði og ég myndi telja að það væri frekar réttlætanlegt að loka landamærunum gersamlega, bara loka. Ég tók eftir því í dag að það er ein vél á leið til landsins, held ég, frá Kaupmannahöfn, ég sá ekki að það væri neitt meira. Þetta er áhætta. Miðað við það sem ég heyrði frá Nýja-Sjálandi, að veiran geti verið í dvala lengur en í hálfan mánuð og stekkur þá upp, þá erum við í stórhættu. Ef við verðum veirufrí, náum því, þá fer allt af stað, nema að vísu ferðaþjónustan en við getum líka hjálpað henni. Nú er ríkisstjórnin að tala t.d. um að bæta við í ferðaávísun, 10.000 kr., 15.000 kr. ferðaávísun. Hvetjum fólk til að fara og kynnast nýjum stöðum vegna þess að við höfum bara gott af því. Ég tek sjálfan mig sem dæmi, síðasta sumar fór ég á Kárahnjúka sem ég hafði aldrei farið, ég fór á Borgarfjörð eystri sem ég hafði aldrei farið til. Hvetjum fólk til þess og við verðum að reyna að sjá til þess að við ferðumst bara innan lands og við verðum skynsöm núna. Við náðum veirunni út en þá hleyptum við ferðamönnum inn og þá komu afbrigðin aftur inn og það fór allt á fleygiferð. Ekki gera það aftur. Við hljótum að hafa vit á því að skella frekar bara í lás á landamærunum, henda lyklinum, og tökum hann svo upp þegar við erum búin að ná hjarðónæmi.