151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[16:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir að hafa tölu á því hversu oft sú sem hér stendur hefur þurft að svara. Ég held að það sé líka eitt af því sem er fordæmalítið en það er bara gert með gleði. Hv. þingmaður fer svolítið mikinn á köflum um að hlutirnir séu farnir í vaskinn og úr böndunum o.s.frv. Ég vil samt segja hv. þingmanni það í fullri einlægni að þær upplýsingar sem ég er með fyrir framan mig og lúta að þeirri seinkun sem er að verða á framleiðslu bóluefna frá Pfizer og AstraZeneca snúast ekki um það að við séum að fá minna innan ársfjórðungsins. Það eru a.m.k. þær upplýsingar hef ég hef núna. Hv. þingmaður getur alveg kallað það einhvern misskilning í væntingastjórnun eða hvað það er, en mig varðar ekkert um hvað heitir væntingastjórnun eða annað. Ég vil bara leggja mig fram um það að gera grein fyrir hlutunum eins rétt og ég get á hverjum tímapunkti.

Hvað hv. þm. Páll Magnússon átti við hins vegar þegar hann var bjartsýnn get ég ekki svarað fyrir. Hv. þingmaður verður að eiga það við hv. þingmann hvort hann var einstaklega vel upplagður á þessum tiltekna degi eða hvað það var sem hann var að velta fyrir sér.

En ég vil segja það við hv. þingmann að ég hef engan sérstakan áhuga á því að halda einhverju frá þingmönnum og hef þess vegna lagt áherslu á að vefurinn bóluefni.is sé uppfærður á hverjum degi. Ég vil þakka þinginu fyrir það að hafa verið tilbúið í umræðu ítrekað um þessi mikilvægu mál en ég vil jafnframt víkja mér undan því að sitja undir því að hér (Forseti hringir.) sé eitthvað annað á ferðinni en vilji til þess að segja satt og rétt frá.