151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

samfélagstúlkun.

124. mál
[22:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til að leggja orð í belg í þessu ágæta máli en ég er reyndar meðflutningsmaður á því með hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur o.fl. Ég tel þetta vera mjög mikilvægt mál. Mikill fjöldi fólks fer á milli landa og tekur sér búsetu í nýju landi þar sem annað tungumál er talað, eins og hér á Íslandi. Íslenska er erfið fyrir það erlenda fólk sem hingað hefur komið, tekið sér búsetu og starfað með okkur í landinu. Það er auðvitað mjög mikilvægt að taka vel á móti þessu fólki og einn þáttur í því er að veita því eins gott aðgengi að þeirri þjónustu sem við veitum í landinu fyrir okkar eigin þegna. Auðvitað eigum við að taka á móti þessu fólki á svipaðan hátt og veita því aðgengi að þeirri sömu þjónustu. Fólk sem ekki talar tungumálið sem hér er talað er hindrað í því að sækja þá opinberu þjónustu sem það á í mörgum tilfellum rétt á, alls kyns aðstoð og leiðbeiningum frá hinu opinbera. Það er þáttur í aðlögun þess fólks sem kýs að búa hér, þáttur í því að við hjálpum því og aðstoðum við að skilja sem fyrst íslenskt samfélag svo að það geti nýtt sér þau gæði sem við teljum sjálfsagt að njóta. Auðvitað á það fólk sem leggur til samfélagsins vinnu o.s.frv. einnig að geta notið þeirra sömu gæða.

Tillagan gerir ráð fyrir að starfshópur verði skipaður sem meti stefnu um eflingu á samfélagstúlkun, sem svo er nefnd, með það að markmiði að auka aðgengi þeirra sem ekki tala íslensku eða nota táknmál að opinberri þjónustu. Þetta er sjálfsagt mál og gott og ég verð að taka undir það sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði áðan um að hann væri hissa á því að þingmenn kæmu ekki í röðum til að mæla með þessari góðu tillögu.

Þetta mál er líka gott að því leyti til að það eflir og styður við íslenskt mál. Ég veit ekki betur en hér í dag hafi verið umræða um íslenskt mál, og hvernig við gætum verndað íslensku. Þetta er þáttur í því líka, að þeir sem hingað koma til landsins, taka sér búsetu hér og starfa með okkur, fái þessa þjónustu og geti þannig aðlagast samfélaginu hraðar og hugsanlega tileinkað sér íslensku í framhaldinu. Þetta er þáttur í því að þessu fólki líði vel og finni sig velkomið og fái þá þjónustu sem það á rétt á.

Ég er mest hissa á því, herra forseti, að ekki skuli fjöldi þingmanna, fleiri en raun ber vitni, koma í pontu út af þessu máli. Það er fátt mikilvægara í vestrænum samfélögum — þar sem samfélögin eru orðin mjög blönduð af fólki sem talar kannski ekki það tungumál sem frumbyggjarnir, eigum við ekki að orða það þannig, tala — en að fá það fólk til að aðlagast samfélaginu til að geta gefið af sér þau gæði og þá þekkingu sem það hefur til að bera. Einn þáttur í því er að heimalandið bjóði fólk velkomið og sýni það í verki með því að auka og bæta aðgengi þess að þeirri þjónustu sem það á í mörgum tilvikum fullan rétt á.

Ég ber þá von í brjósti að málið fái góða umfjöllun í nefnd og komi svo aftur inn í þingsal og að tekið verði jákvætt undir þær tillögur sem hér birtast.