151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[23:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við Miðflokksfólkið erum ekki móðgunargjörn og Miðflokkurinn er ekki móðgunargjarn flokkur. En þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að ég og hv. þingmaður séum ekkert langt hvort frá öðru í því sem við erum að hugsa. Hér er gert ráð fyrir því að gerð verði könnun á því að reisa stóra sorpbrennslu. Hún verður að vera stór svo að hún sé hagkvæm og það er náttúrlega ekki á færi sveitarfélags eða jafnvel Sambands íslenskra sveitarfélaga að byggja slíka stöð. Mér finnst það því liggja í tillögunni, vegna þess að það er jú verið að skora á umhverfisráðherra að kanna þetta, að við séum að tala um eitthvað sem væri sameiginlegt verkefni okkar allra að vinna að. Ég hef nú stundum sagt þá sögu, vegna þess að mér þykir hún óneitanlega mjög sorgleg, að í litlu sveitarfélagi austur á landi, í Skaftárhreppi, var sorpbrennsla og hún hélt hita á íþróttahúsinu og sundlauginni og á sveitarstjórnarskrifstofunum. Henni var lokað, herra forseti, út af díoxínmengun og menn leituðu að díoxíni alls staðar; í grasi, búfjárafurðum, öllu sem heitið gat. Það fannst ekkert díoxín í þessu. Samt sem áður var brennslunni lokað. Og hvað var gert í staðinn? Jú, menn fundu náttúrlega urðunarstað einhvers staðar mitt á milli Hvolsvallar og Víkur, ef ég man rétt. Skaftárhreppur er mjög víðáttumikill og sorp er keyrt að þessari holu beggja megin frá, allt upp í 200–300 km leið, á dísiltrukkum til að grafa það í sand. Ég veit ekki til að gerð hafi verið nein sérstök úttekt á umhverfi sandfjörunnar eða sandhólsins sem þetta er urðað í. Menn eru í vandræðum út um allt land og ef menn eru í vandræðum á þessu svæði hér (Forseti hringir.) þá skilur maður það vel að menn séu í enn þá meiri vandræðum úti um landsbyggðina þar sem eru fámenn sveitarfélög. Þess vegna er þessi tillaga svo brýn.