152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[17:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þetta mál og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir það. Þetta er framhald vinnunnar sem við hófum á síðasta kjörtímabili þar sem að mínu mati voru stigin mjög stór skref, m.a. varðandi hömlur á uppkaupum jarða, að menn söfnuðu til sín mörgum jörðum. Það var eitt af stóru málunum þar. Eins og kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi er m.a. verið að vitna til þess máls og í vinnu allsherjar- og menntamálanefndar sem ég sat í á þeim tíma. Það er áhugavert þegar maður skoðar þetta að lög um landamerki voru sett 1882 og þau sem eru í gildi núna eru frá 1919 þannig að það er kannski komið tilefni til að hræra aðeins upp í þeim. Eins og hér er einmitt verið að benda á er þar talað um hjáleigur, húsmannabýli og þurrabúðir og það er talað um hreppstjóra. Ekkert af þessu á kannski beint við í dag, alla vega ekki það orðfæri sem þarna er notað. Þannig að það er sannarlega komið tilefni til þess að fara yfir þau þótt ekki sé nema út af þessu. Lögin voru sett á sínum tíma í þeim tilgangi að reyna að ná utan um og afmarka jarðir og hér er auðvitað verið að gera enn betur í því að mínu mati.

Hér hefur auðvitað verið rætt um forkaupsréttinn og ég get alveg tekið undir það að auðvitað þarf ríkið að vera með skýrar forsendur og öllum þurfa að vera ljósar forsendurnar þegar verið er að kaupa upp jarðir sem eru með menningarminjar því að þær eru ansi víða eins og hér var bent á. Auðvitað viljum við gera allt sem við getum til að vernda menningararf þjóðarinnar en leikreglurnar þurfa að vera skýrar. Ég held að það sé mikilvægt að nefndin fari vel ofan í það.

Það sem við ræddum talsvert um í nefndinni síðast og er verið að taka á hér að einhverju leyti a.m.k. eru jarðir sem eru í sameign margra eigenda. Það var mjög mikið rætt, vandkvæðin sem fylgja því. Stundum er ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut og við munum sjálfsagt mörg sem höfum fylgst með þessum málum, í mínu kjördæmi alla vega, þegar við vorum að tala um Reykjahlíðina og Dettifoss og svo auðvitað Geysissvæðið, það var nú talsvert í fjölmiðlum á sínum tíma þar sem var dálítið erfitt að ná utan um þetta. En þegar eru svona margir eigendur og þetta erfist bara — sumir hafa engan áhuga, aðrir hafa talsverðan áhuga — þá getur það orðið til þess að ekki næst að gera það sem gera þarf, byggja upp innviði t.d., ef það er það sem þarf að gera. Og af því að í dag er ekki nógu skýr lagaheimild um hvernig beri að fara með þetta verður þetta til trafala og ekki er hægt að byggja upp. Og það er líka dálítið áhugavert að það séu engar hömlur á því hversu margir eigendur geta orðið að jörðum eins og rakið er ágætlega í frumvarpinu og þetta hefur valdið, eins og hér hefur verið rætt, vandkvæðum þegar kemur að því að byggja upp eða friðlýsa eða eitthvað slíkt. Svo er kannski einhver einn aðili sem næst ekki í og það hefur orðið til þess að ekkert hefur verið hægt að gera. Ég er því mjög ánægð með að hér er verið að ráðast í endurskoðun og reynt að ná utan um þetta án þess að vera að búa til eitthvað nýtt. Hér er byggt á lögum um fjöleignarhús eins og hæstv. forsætisráðherra fór ágætlega yfir. Þau hafa gagnast okkur vel og það má segja að það sem þau geta gert í þessum efnum sé yfirfært á þessi mál. Það skiptir líka gríðarlega miklu máli, eins og hér er verið að gera, að skýra hlutverk okkar opinberu starfsmanna, sýslumanna og fleiri.

Skráningin var mjög mikið rædd og hæstv. forsætisráðherra kom inn á það í upphafi síns máls að landeignaskráin tekur tíma, þetta er kannski svo miklu umfangsmeira en maður heldur. Hv. þingmaður sem hér talaði á undan mér var að tala um landamerki og að hnitsetja þau, ég held að það sé skynsamlegt. Ég hef í fórum mínum gamlar bækur þar sem landamerki eru skrifuð út, eign ekkju sem sat eftir og hún hafði kannski takmarkaðan rétt, skulum við segja, þetta er það langt síðan og þar sér maður hvernig þetta var og er enn þá. Menn eru að miða við steina eða hóla eða hæðir sem þeir telja sig eiga. Það eru auðvitað ekki ásættanleg viðmið nema þau séu a.m.k. verulega vel skráð.

Hér er líka komið inn á hlutverk sveitarfélaganna, sem búa kannski mörg hver yfir góðum upplýsingum. Það er verið kannski að lagfæra það sem hér er sagt að sé áfátt í skipulagslögunum, m.a. eru ekki gerðar kröfur til hönnuða eða mælingarmanna um könnun gagna eða framkvæmd mælinga eða framsetningu mælikvarða o.s.frv. Svo er bara ósamræmi líka á milli sveitarfélaga um þessi mál. Það er ekki heldur skýrt hvað felst í yfirferð og staðfestingu sveitarfélags á mæliblaði. Þetta er allt saman verið að reyna að skýra og ég held að það sé bara mjög mikilvægt af því að við höfum auðvitað búið við umhverfi í kringum þetta sem er kannski ekki nógu gott. Þetta er hluta til, eins og hér hefur komið fram, tæknilegt frumvarp en að mestu leyti er bara verið að skýra samt sem áður ákveðna hluti og ég vona sannarlega að málið nái fram að ganga. Þótt tíminn sé ekki mjög mikill hér á þessu vorþingi þá held ég að flestir hljóti að vera því sammála að það sé mjög mikilvægt réttarfarslega að málið nái fram að ganga. Ég vona svo sannarlega að allsherjar- og menntamálanefnd nái að vinna í því þannig að við getum gert frumvarpið að lögum áður en þingi lýkur í vor.