152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

vísitala neysluverðs.

279. mál
[18:29]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir það sem hér var sagt. Þessi aðgerð er ein af mörgum sem þarf að grípa til núna og þótt fyrr hefði verið. „Don´t try to fool me“ var lag sem hljómaði hér á öldum ljósvakans fyrr á árum og heyrist enn þann dag í dag. Það er í rauninni eitthvað sem mætti færa upp á það sem gerðist hér í aðdraganda bankahrunsins mikla þegar almenningur í Bandaríkjunum var blekktur til að kaupa vafninga, húsnæðislán, 100% húsnæðislán, „böndluð“ saman við einhvers konar tryggingarbréf og eitthvað sem enginn náði almennilega upp í en keypti þetta og gleypti þetta og það fór sem fór. Það var ekki sams konar blekkingarleikur, og ég trúi ekki að það hafi endilega verið vísvitandi blekkingarleikur sem átti sér stað þegar hér voru lækkaðir í sögulegt lágmark vextir Seðlabankans. Sumir bankar tóku eitthvert mið af því, aðrir ekki eins og gengur, en það voru alla vega margir sem féllu fyrir þeirri freistingu að fara nú að fjárfesta í húsnæði á viðsjárverðum tímum, Covid-tímum, þegar var kannski ekki alveg fyrirséð hvernig þróun efnahagslífsins yndi fram. En nú sjáum við hvað gerðist. Það sem átti hugsanlega að verða til þess að bjarga fyrirtækjum og koma hjólum atvinnulífsins í eðlilegra horf á samdráttartímum alheimsfaraldurs varð að freistingu fyrir fólk, ungt fólk á öllum aldri, til að fjárfesta í húsnæði sem það síðan kannski hefur enginn efni á að standa straum af og það á eftir að koma í ljós.

Íslandi hefur stundum verið lýst sem tveggja þjóða fyrirkomulagi þar sem annars vegar eru fjármagnseigendurnir og hinir síðan eins og hamstrar í hjóli sem hlaupa og hlaupa til að eiga fyrir afborgunum og standa straum af öllu bixinu sem hækkar og hækkar, eins og hér var lýst. Standandi hér í ræðustól Alþingis, í þjóðarlíkamanum, þá finnur maður alveg fyrir þessari bólgu, þessari verðbólgu í ökklunum, þessum vaxtarverkjum öllum. Það finna allir fyrir því en þeir mest sem eru fastir í fastlaunakerfi, venjulegur verkamaður á akri atvinnulífsins sem er bara með sín föstu laun. Það mun koma að átökum núna þegar líður á árið, óhjákvæmilegum því miður. Þetta var kannski ekki sérhannað. Þetta var ekki útbúið af illum hug. Þetta er bara því miður einhvern veginn óhjákvæmileg framvinda í einhverju hálfgerðu óheillaferli sem má rekja alveg til tímans undir lok áttunda áratugarins eða „the ´70s“, eins og sagt er og þar í kringum 1980 þegar hér var verðbólgan slík að það minnti á Argentínu og verðtryggingin var kynnt til sögunnar sem tímabundið neyðarfyrirbrigði sem átti bara að vera í nokkra mánuði, í mesta lagi misseri. En við sitjum enn þá uppi með verðtryggingu eitt Vesturlanda og ég kann ekki skil á hvar verðtryggingin þykir sjálfsagður hlutur eins og hún þykir hér. En það var klippt á það að verðtryggingin næði til bæði launa og lána og eftir sitja þeir sem ekki eiga fjármagn en þurfa að greiða lánin sín með verðtryggingu og þeim vöxtum og vaxtavöxtum og síðan refsivöxtum sem gjarnan taka við þegar innheimtustofnanirnar keyra fólk í afborganir af uppsöfnuðum syndum og erfiðleikum.

Þetta er kannski eitt af stærstu verkefnum íslensks samfélags, að vinda ofan af þessari vitleysu. Sumir kenna genginu um þetta, íslensku álkrónunni, og telja að það sé ekki hægt að taka á þessum nema með því að segja okkur í evrópska efnahagsumhverfið allt saman. En þjóð sem á allt sem allir aðrir ágirnast og vilja, grænu orkuna og landgæðin öll, hreina loftið, hreina vatnið, fiskimiðin og fiskeldið og öll þau tækifæri til blómstrunar, hlýtur að geta komið sér upp sínum gullfæti, sýnum álfæti eða sínum gjaldmiðli sem þarf ekki að verða bitbein eða vandræðabarn. Það er bara spurning um vilja og sameiginlegt átak. Við getum ekki boðið fleiri kynslóðum en okkar eigin upp á þessa framvindu. Þetta er ekki hollt. Það er ekki hollt fyrir geðið eða sálina. Það er ekki boðlegt börnunum okkar og barnabörnum að vera eina þjóðin í heiminum sem er í þessari vondu „lúppu“.

Ég held að sem betur fer eigum við innan ríkisstjórnarinnar fólk sem sér þetta, skilur þetta og hefur lýst yfir vilja til að taka á þessu. Við eigum banka sem gefa vel af sér, banka sem eru reyndar flæktir í þennan vef og þessa vafninga alla sem bitna síðan á almenningi í landinu en fita eigendur sína og hluthafa. Mikið væri dásamlegt ef við gætum sammælst um það bara að hrista af okkur alla þessa vaxtarverki, allar þessar bólgur, allar þessar verðbólgur í liðunum, og farið að láta okkur líða vel í íslenska þjóðarlíkamanum og láta okkur líða vel með það að hér sé auðugt samfélag jöfnuðar, réttlætis og almennrar skynsemi þar sem flókin spilverk sjóðanna valda ekki svefnleysi og viðvarandi kvíðahnútum í litlu mallakútunum.

Ég er einn þeirra sem skrifa upp á þetta frumvarp hér og stilli væntingum mínum í hóf þar sem þetta er auðvitað minnihlutafrumvarp. En við skulum vona það besta og vona að menn sjái ljósið hvar í flokki sem þeir standa og sýni þeim samúð og miskunn sem eru hin raunverulegu fórnarlömb þessarar óheillaþróunar.