152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[18:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega koma hingað upp og þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir prýðisræðu, sem ég er sammála í nokkurn veginn einu og öllu. Ég verð þó að viðurkenna að ég er búin að vera hérna mjög lengi og mér finnst ég hafa heyrt þessa ræðu nokkrum sinnum og einhvern veginn miðar aldrei neitt í þessu. Ég hefði náttúrlega viljað sjá stærri skref stigin. Ég hefði náttúrlega helst viljað sjá allt gefið frjálst, en við erum að átta okkur á því, ég held að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því, að stundum þarf að taka fílinn og borða hann í litlum bitum. Ég skil það sjónarmið. Smærra skref hefði þá verið að einfaldlega afnema einokunarsölu ríkisins á sölu áfengis. Það hefði líka verið eitt skrefið. En þetta er alla vega virðingarvert og eins og ég segi tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni. Ef við næðum að sameinast um þótt ekki væri nema þetta þá væri það mikilvægt.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að ég held að það sé meiri hluti fyrir því í þinginu að fá þetta alla vega inn í þingsal og fá að greiða um það atkvæði, sem ég styð ég heils hugar: Mun hún beita sér fyrir þessu innan ríkisstjórnarflokkanna, ekki bara innan eigin flokks og vona að þótt þar séu skrýtnar skoðanir á köflum sé hann sameinaður á bak við þetta frumvarp, og bindur hún vonir við að fá þetta mál til afgreiðslu á þessu þingi? Það er ekki þannig að við séum að drukkna úr vinnu hér við stjórnarfrumvörp, þannig að það ætti að vera svigrúm fyrir þetta mál til þess að komast alla vega í afgreiðslu. Í öðru lagi: Gæti þingmaðurinn hugsað sér að taka jafnvel enn stærri skref en hér er verið að boða? En ég þakka fyrir þessa ræðu, hún var prýðisgóð.