152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[18:59]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég ætla að leyfa mér að segja að sjaldan er góð vísa of oft kveðin, eða hvað? Ég tek algjörlega undir það að auðvitað hefur þetta mál oft verið rætt þótt það hafi tekið mismunandi útfærslum og vendingum í gegnum árin. Nú er hv. þingmaður búinn að vera hérna lengur en ég, en nú er ég komin hingað inn og er alla vega að leggja mitt af mörkum. Ég vona auðvitað innilega að það muni ganga og get algerlega sannfært hv. þingmann um að ég stæði að sjálfsögðu ekki hér og væri að leggja fram þetta mál og tala við kollega mína um það nema af því að ég ætla mér að gera allt sem í mínu valdi stendur til að ná því í gegn. Ég tek undir með þingmanninum að mér finnst mikilvægt að þetta mál fari inn í þingsal. Árin og jafnvel áratugirnir líða og við höfum einhvern veginn aldrei tekið almennilegan lestur á hvar þingheimur stendur gagnvart því sem mér finnst vera sjálfsagt frelsisskref, jafnræðisskref til hagsbóta fyrir neytendur með löglega neysluvöru. Ég mun gera mitt til þess að þetta mál komist út úr einhverju kreddutali og við fáum almennilegan lestur á það en þingið fúnkerar eins og það gerir, við vitum það öll. Ég mun alla vega gera mitt besta.

Ég hef sjálf verið flutningsmaður á frumvarpi sem gekk lengra og get vel tekið undir með hv. þingmanni, ég get líka séð fyrir mér aðrar útfærslur og að afnema einokunina og slíkt. En það má ekki gleyma því að þetta mál, í þeirri pattstöðu sem það er, er líka jafnræðismál. Það er ákveðin staða í samfélaginu varðandi t.d. netverslun þar sem er hægt að nálgast vörur að utan en ekki frá okkar fínu, innlendu aðilum. Þannig að þetta er ekki síst skref í þá átt. En það mun aldrei sitja á mér að taka stærri frelsisskref. Því get ég lofað.