152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[19:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aldrei verður góð vísa of oft kveðin — jú, það getur verið. Ég rifja það upp þegar ég svæfði börnin mín með söng og eitt barnanna var orðið frekar þreytt á þessu, af því að ég er frekar laglaus líka, ég geri mér grein fyrir því að það hafi kannski haft áhrif. En það voru alltaf sömu vögguvísurnar sem ég söng og eftir einhver ár leggur sonur minn hönd sína á höndina á mér og segir: Mamma, nú get ég bara ekki meir. Ég held að það sé svolítið þannig hjá okkur eftir öll þessi ár, 20 ár eða hvað það er sem maður er búinn að vera hérna, að við þurfum að fara að koma þessu inn í þingið og leyfa okkur að greiða atkvæði um þetta. Af því að hversu góð sem ræðan var áðan þá get ég ekki meira af þessu framtaksleysi í skipulagi á dagskrá þingsins, að geta ekki komið með okkur og treyst þingmönnum til þess að greiða atkvæði um það. Og hver er pattstaðan? Pattstaðan er sú að hv. þingmaður og flokkur hans er í samstarfi með öðrum flokkum, tveimur öðrum flokkum sem eru ekkert ótrúlega áfjáðir í því að standa frammi fyrir því að ýta á græna takkann eða rauða takkann, þeirri áskorun og þeirri ábyrgð sem fylgir því í stórum sem litlum málum að greiða atkvæði í þessum sal. Pattstaðan er sem sagt sú að það eru tveir aðrir stjórnarflokkar sem leyfa þessu máli ekki að koma inn í þingsal. Ég vil að hv. þingmaður viti það, fari með það veganesti, að ég mun styðja hana eindregið í því að fá þetta mál út úr nefnd til þess að við þurfum ekki að heyra þessa sömu vísu næstu þrjú árin, því að kjörtímabilið er rétt að byrja.