Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur vikum benti ég á þá hlægilegu staðreynd að það væru fleiri bílastæðahús en gistiskýli fyrir heimilislausa á höfuðborgarsvæðinu. Eins benti ég á þá staðreynd að gistiskýli væri lokuð frá klukkan tíu á morgnana til klukkan fimm síðdegis og því hefur heimilislaust fólk ekki í nein önnur hús að vernda en bílastæðahús eða bókasöfn.

Forseti. Veðurspá gerir ráð fyrir 15 stiga frosti um helgina og það liggur ekki enn þá fyrir hvort opnunartími gistiskýla verði framlengdur. Höfum það í huga að ekki allir komast yfir höfuð að í gistiskýlum og stundum neyðist fólk hreinlega til að sofa úti í kuldanum. Það eitt og sér er óforsvaranlegt. Hvernig getur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sætt sig við að svo fátt sé um úrræði fyrir þau sem verst eru sett í samfélaginu? Eftir því sem ég best veit stendur ekki til að ráðherrar ríkisstjórnarinnar ætli að gera neitt sérstakt í málefnum heimilislauss fólks, en það má sjá á fjárlögunum sem við höfum verið að ræða síðustu daga og afgreiða. Allt strandar á einstökum stofnunum og sveitarfélögum sem hafa takmarkað fjármagn og húsnæði til að bjóða upp á úrræði. En æðstu stjórnvöld landsins láta neyð þeirra allra verst stöddu sem vind um eyru þjóta á meðan. Hér þarf að eiga sér samtal milli ríkisins og sveitarfélaga varðandi fjölgun á félagslegu húsnæði og úrræði fyrir heimilislaust fólk. Hvernig stendur á því að meiri hluti félagsþjónustu sem er í boði fyrir heimilislaust fólk sé einungis í Reykjavík?

Forseti. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða stefnu sína í velferðarmálum og sýna það á borði en ekki einungis í orði að Ísland sé sannarlega það velferðarríki sem við segjumst vera.