Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:10]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir svarið. Ég er sammála því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, eins og með hækkun á húsaleigu þessarar konu. Ég fagna þessari endurskoðun á almannatryggingakerfinu mjög mikið. Guð veit hvað það er tímabært að endurskoða þetta blessaða kerfi. Við segjumst ætla að vera velferðarríki og að það séu ekki það margir sem hafi það skítt á Íslandi en það er því miður ekki raunin. Með tilliti til verðlagsþróunar, með tilliti til verðbólgunnar sem ríkir, með tilliti til ástandsins í efnahagskerfinu þá skil ég ekki af hverju við erum ekki bara að rífa okkur í gang og koma nauðsynlegustu breytingunum í framkvæmd. Við gætum t.d. byrjað á því að hækka lágmarksframfærsluna. Ég held að það sé nauðsynlegasta breytingin sem þarf að eiga sér stað í þessari heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Setjum það í eitthvert samhengi sem ég skil og tengi við, við Menntasjóð námsmanna. Frítekjumarkið var hækkað upp í 1,4 milljónir og 900.000 kr. sem er alveg frábært, geggjað. Stúdentar fá núna að vinna sumarvinnu án þess að það skerði lágmarksframfærslu en lágmarksframfærslan er sem áður 195.000 kr. á mánuði. Hvað á ég að gera við 195.000 kr. annað en að borga leigu á stúdentagörðunum, ekki einu sinni á almennum leigumarkaði? Almenni leigumarkaðurinn er kominn upp í 260.000 kr., 270.000 kr. á mánuði fyrir eða eftir húsaleigubætur. Það fer bara eftir því hvað fjölskyldan er stór, hvar þú ert að leigja. Ég skil ekki af hverju lágmarksframfærsla allra hópa sem þurfa á því að halda tekur ekki mið af stöðunni sem er núna í efnahagskerfinu og því sem fólk þarf á að halda til þess lifa. Ástandið er ömurlegt, vægast sagt.