Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:58]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sitt innlegg hér. Ég er þannig innréttaður að mér er sama hvaðan gott kemur. Það hefur hent marga úr minni stétt, tónhöfunda, að hafa samið lag og svo kemur allt í einu út lag sem er nauðalíkt því sem þú fluttir einhvers staðar á mannamóti, splunkunýtt lag. Þetta henti Halldór Laxness sáluga og Magnús Árnason. Þegar þeir voru á þriðja áratug síðustu aldar í Kaliforníu að koma lögum á framfæri þá fluttu þeir lag sem þeim þótti ákaflega hljómprútt og fagurt fyrir kunningjahóp sem var í sama geira. Sex mánuðum síðar heyrðu þeir þetta sama lag undir öðru höfundarnafni. Ég lít ekki á það sem alvarlegt höfundaréttarbrot þótt ég kæmi með hugmynd sem einhver annar myndi síðan taka og barna og leggja fram undir öðru nafni eða undir hatti annars flokks. Það sem skiptir mestu máli er að við getum orðið að gagni hér með sameiginlegum hugmyndum sem við köstum á milli okkar og ég myndi gleðjast mjög ef einhverjar af hugmyndum mínum eða Flokks fólksins eða þínum, hv. þingmaður, yrðu framlagðar samfélaginu til góðs og þeim sem mest þurfa á því að halda. Ekki myndi ég harma það þótt mitt eigið nafn kæmi þar hvergi við sögu.