Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. minni hluta  (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Bara frábærar spurningar Það sem fylgir með og kom inn í velferðarnefnd í þessu samhengi er að settur er rétt rúmur milljarður í kostnað, 1 milljarður og 16 eða 17 milljónir, ég man ekki, sem þeir reikna með í kostnað við málið. Þá fór ég að hugsa: Bíddu, hvernig fá þeir út þennan kostnað, vegna þess að þeir eru alltaf að borga þessum einstaklingum frá mánuði til mánaðar, og þeir þurfa að halda því áfram? En ef þessi einstaklingur fer að vinna — vinnur sér inn 200.000 kr. á mánuði, sem hann má, það er innan frítekjumarksins, og sleppur við flestar skerðingar, þannig að hann kemur til baka með útsvar og jafnvel tekjuskatt, það fer eftir því hversu háar tekjur hann var með fyrir — þá skilar það sér inn. Ég sé hvergi að tekið sé tillit til þess. En þeir horfa á það þannig að ef viðkomandi er með tekjur og lendir inni í skerðingakerfinu, verður skertur, þá minnki útgjöld ríkisins. Þeir eru búnir að reikna það út að ef allir myndu nýta sér það þá myndu útgjöld minnka um 1 milljarð sem þeir setja inn sem kostnað. Það segir sig sjálft að það hefur ekkert breyst. Greiðslur frá ríkinu til þessara einstaklinga hafa ekkert hækkað. Það er hvergi inni í dæminu að verið sé að hækka einhverjar greiðslu til þeirra heldur er verið að draga úr skerðingum ef þeir ná sér í aukatekjur. Þetta er bara leikur að tölum. Þess vegna væri auðvitað miklu skynsamlegra að segja eins og Danir: Farið að vinna, engar skerðingar, bara inn.