Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Skil ég það rétt að ríkissjóður meti kostnaðinn af málinu sem tapið af sparnaðinum af skerðingum sem ekki koma fram? Það er magnað. Þetta er einhvers lags eilífðarvél. Augljóslega á þetta við varðandi eldri borgara. En þekkir hv. þingmaður til þess að sambærileg nálgun sé viðhöfð í kostnaðarútreikningum ríkissjóðs eða fjármálaráðuneytis í tengslum við fjárlög við aðra þætti en þá er varða öryrkja og ellilífeyrisþega? Það er auðvitað þannig að ef ríkið reiknar sig í stórkostlegt tjón af því að verða af sparnaði af skerðingum til örorkulífeyris- og ellilífeyrisþega þá held ég að reiknistokkurinn sé orðið rangt stilltur og að í engu sé horft til þeirra tekna sem af aukinni virkni mun hljótast.

Hv. þingmaður, var þetta rætt að einhverju marki í nefndinni þegar málið var til umræðu? Þekkir hv. þingmaður til þess eða komu fram einhverjar athugasemdir við meðferð málsins sem draga fram fáránleikann í þessari nálgun?