Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[18:58]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um félagslega aðstoð, greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris, það er verið að lengja það úr þremur árum í fimm. Hvort sem við þurfum að labba á milli Pontíusar og Pílatusar — einhver sagði að það væri ekki rétt, maður ætti að labba á milli Pontíusar og Heródesar, en það skiptir ekki máli, Pontíus, Pílatus, Heródes, við eigum ekki að þurfa að labba neitt í svona kerfi. Þeir sem eiga að hlaupa á milli allra þessara kerfa eru fatlaðir, veikir, slasaðir. Það er ætlast til þess að þeir hlaupi á milli stofnana og safni gögnum og það er bara einn tilgangur með því að hafa kerfið þannig. Það er til að draga það á langinn að þeir komist inn í kerfið, það er verið að reyna að þreyta viðkomandi svo að hann gefist upp á að reyna að komast inn í það kerfi sem hann á rétt á. Það er mjög einfalt mál að leysa þetta og það átti að byrja á því, áður en við byrjum á þessu, og það er að koma upp miðstöð endurhæfingar. Viðkomandi labbar þar inn og fær þar alla þjónustu. Hann getur líka, ef hann hefur aðstöðu til, sent á undan sér rafræna beiðni. Ef hann getur það ekki þá getur hann komið á staðinn og fengið aðstoð við að fylla út beiðnina og síðan sér miðstöðin um að fá það sem upp á vantar, allar upplýsingar um viðkomandi frá lækni og allt annað sem á þarf að halda.

Eins og staðan er í dag þá þarf viðkomandi að byrja á því að fara til læknis og ef hann er ekki með heimilislækni þá þarf hann einhvern veginn að ná því í gegn. Það er mjög erfitt að eiga við það fyrir fólk og við vitum að það getur tekið allt upp í tvo mánuði að komast til heimilislæknis. Og þegar þú kemst að hjá heimilislækninum þá þarftu jafnvel að finna einhver önnur gögn og síðan þarf að koma þessu til Tryggingastofnunar og hún tekur sér að lágmarki sex vikur til þess að vinna málið áður en það fer í ferli. Þetta sýnir okkur hversu fáránlegt þetta kerfi er.

Þegar þú ert kominn inn í kerfið þá byrjar sama þrautagangan aftur, liggur við um leið. Það er eitthvað að svoleiðis. Okkur var bent á það í velferðarnefnd af lækni að þetta er orðið algjört skrifræði fyrir þá og það sé lágmark að þeir geti sent inn vottorð sem gildi kannski í sex mánuði áður en farið er að heimta nýtt vottorð. Við vitum að í sumum tilfellum er það mikið lengur, það fer ekki á milli mála oft á tíðum að það mun taka jafnvel eitt, tvö, þrjú ár að endurhæfa viðkomandi og þá er það óskiljanlegt að það eigi á tveggja, þriggja mánaða fresti að vera eltast við einhver gögn til þess að segja kerfinu það sem kerfið veit.

Ef við ætlum að láta þetta virka þá verðum við að byrja á réttum stað, fara á þennan stað og gera hlutina á réttan hátt. Ég mun styðja þetta mál vegna þess að ég veit að þarna undir eru hópar, það er því miður byrjaður að safnast fyrir í endurhæfingarkerfinu hópur fólks sem á ekki að vera þarna inni og ætti að vera komið yfir á örorku og öfugt, fólk fyrir utan sem kemst ekki inn í kerfið. Ég vona heitt og innilega líka að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim sem eru að detta út úr kerfinu vegna þess að þeim er eiginlega hent á milli eins og heitri kartöflu og þá lenda þeir í félagsbótakerfinu. Það er betra að þeir séu þarna inni vegna þess að þarna fá þeir alla vega fullan örorkulífeyri. Þess vegna vona ég heitt og innilega að um leið og við samþykkjum þetta mál þá verði drifið í því að einfalda kerfið þannig að fólk geti gengið inn á einn stað, fengið allt sem á þarf að halda án þess að það þurfi að hlaupa út um allar trissur og það verði séð til þess að það þurfi ekki að fara strax af stað aftur til að eltast við sömu hlutina. Hlutirnir séu líka gerðir þannig að það sé metið hversu langan tíma fólk þarf að vera í endurhæfingu að lágmarki, hvort sem það eru fimm, sex mánuðir, ár og þá þurfi kannski að endurnýja.