Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og að vera sammála því sem ég sagði í ræðu minni og ég fagna því. Nú hef ég ekki lesið þessa grein sem hv. þingmaður vitnar í en vil þó segja að þetta ýtir undir það sjónarmið og þá gagnrýni að þetta frumvarp sem við erum að ræða hér sé ekki nægilega skýrt orðað. Það þarf að vera alveg ljóst hvað átt er við, hvað við erum að gera þegar við erum að framlengja bráðabirgðaákvæðið næstu tvö ár. Við megum ekki láta neinn vafa liggja á því hver réttindin eru og megum ekki láta fjármagnið ráða. Við þurfum að svara þessari spurningu: Ætlum við að standa við að eftir tvö ár verði 172 samningar um NPA-þjónustu, ef svo margar umsóknir eru undir, eða ekki? Það má ekki vera neinn vafi þarna á. Þá mun ég glöð vera á græna takkanum. Jafnvel þó að með þessu bráðabirgðaákvæði sé verið að tala um sömu tölu og átti að ná á þessu ári þá er ég tilbúin til að segja: Gott og vel. En verum alveg viss um hvað við erum að samþykkja hér. Tortryggnin er auðvitað vegna þess að í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um fjárhæðir sem allir sjá að munu ekki duga. Það er bara þannig. Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu. Við verðum að hafa hreinar línur.