Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað ætti það ekki að vera þannig og ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að þessi kvótasetning sýni kannski bara hve stutt á veg við erum komin í því að virða mannréttindi fatlaðs fólks. En á móti kemur að við erum enn að tala um þennan fjölda og fjölda samninga í bráðabirgðaákvæði vegna þess að það er ekki búið einhvern veginn að ákveða að festa NPA-þjónustuna í sessi til framtíðar og það er það sem þarf að gera. Ég myndi vilja láta gera það bara strax en telji sveitarfélög og ríkið sig þurfa nauðsynlega á þessu tveggja ára tímabili að halda þá allt í lagi, gerum það. En þá verðum við líka að vera komin með kvótalausa þjónustu við fatlað fólk sem þarf á notendastýrðri persónulegri aðstoð að halda. Við alþingismenn þurfum að sjá til þess hér með okkar eftirliti og aðhaldi, að þetta verði ekki svona lengur, málunum verði komið á hreint. Fyrsta skrefið í því er að hafa þá bráðabirgðaákvæðið svo skýrt að það sé bara hægt að túlka það á einn veg og það í hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og bíða eftir henni. Það er það sem við þurfum að gera hérna. Ég treysti á félaga mína í velferðarnefnd sem eru í stjórnarliðinu og alla aðra hér í þessum sal, að þegar kemur að atkvæðagreiðslunni verði þetta sjónarmið ofan á. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)