Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, mér finnst bara mjög mikilvægt þegar við erum að tala um réttindi fólks, og ekki síst réttindi fatlaðs fólks og öryrkja og aldraðra, að við förum að skoða hver réttindin eru í stjórnarskránni. Við erum með mannréttindakafla stjórnarskrárinnar þar sem íslenska ríkið tryggir — við erum búin að koma okkur saman um það, fyrir ofan pólitíkina, að tryggja ákveðinn rétt; atvinnufrelsi, eignarrétt og líka að öllum sé tryggður réttur til aðstoðar vegna örorku. Það er í 76. gr. Svo erum við með löggjöf um þetta eins og lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þessi lög eru ekki framkvæmd nægjanlega vel. Við erum búin að samþykkja lagatextann, fín lög með bráðabirgðaákvæði um að tryggja allt að 172 samninga á þessu ári. Það eru samt 40 á biðlista, 90 komnir með samninginn.

Það sem vakti áhuga minn, athygli mína, var dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar kemur ekki fram að það hafi verið látið reyna á stjórnarskrárákvæðið, og ríkinu var ekki stefnt þar, bara sveitarfélaginu. Ég tel mikilvægt, til stuðnings stjórnarskrárákvæðinu, að við lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Af hverju er ekki búið að gera það? Það mun kosta pening. Og líka það að fatlað fólk mun þá geta sótt rétt sinn fyrir dómstólum á Íslandi og jafnvel erlendis þá, fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, ég held að það sé hægt að fara með málið þangað. Það er ákveðin svipa á íslensk stjórnvöld. Við sjáum það bara með Mannréttindadómstól Evrópu, það er nú talað um í gríni hjá lögfræðingum að það sé heil álma þar, Íslandsálman. Við erum með miklu fleiri mál en önnur Norðurlönd. Við erum mjög þekkt fyrir að taka mál okkar erlendis og það er mjög áhugaverð söguleg pæling af hverju við erum það. Það var líka fyrir hæstarétti Danmerkur og við vorum dugleg að fara með mál, Halldór Laxness skrifar t.d. í Paradísarheimt að bóndi hafi farið þar með mál fyrir kónginn.

Ég tel varðandi samninginn að það sé grundvallaratriði að tryggja réttinn betur, efla hann betur með því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. (Forseti hringir.) Af hverju er það ekki gert? Peningar.

(Forseti (DME): Ég minni, aldrei slíku vant, hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)