Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvort ég viti um margar svona kvótasetningar, það er góð spurning. Ég myndi segja já, ekki beint kvótasetningar en ég veit um mörg tilvik, og við vitum það öll, þar sem verið er að skerða réttindi einstaklinga sem eiga rétt á því að fá aðstoð. Réttindi öryrkja t.d., réttur til bóta almannatrygginga er skertur ef þeir sækja sér vinnu í sjálfsaflaskyni og ef þeir fá úr lífeyrissjóði. Réttindi aldraðra eru skert ef þeir fá pening frá lífeyrissjóðunum og séreignarsparnaði, þá eru bætur almannatrygginga skertar. Þetta er aðeins öðruvísi, hér er þetta skert með þeim hætti að þjónustan er bara ekki í boði, fólk er að bíða. 44 einstaklingar eru að bíða í dag eftir NPA-þjónustu og í dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra þá var einstaklingur búinn að bíða í rúmlega ár. Svo þegar honum er svarað er sagt: Við bindum þetta því skilyrði að þú færð aðstoðina ef við fáum fjármagnið frá ríkinu. Það er allt reynt til að einstaklingarnir fái ekki rétt sinn, fái ekki þjónustuna og NPA-samninginn, fái ekki bætur almannatrygginga og þetta snýst allt um það að ríkið er að spara. Við erum að reyna að keyra velferðarsamfélag en það er alltaf verið að skera niður. Barnabætur líka, þær eru skertar. Á Norðurlöndum eru barnabætur ekki skertar. Það er nákvæmlega sama hérna. Ég tel að þetta sé það stórt mál fyrir sveitarfélögin og ríkið að ríkið þurfi að axla meiri ábyrgð og koma í veg fyrir það að þjónustan sé ekki veitt og það er ekki gott að við séum að setja lög sem eru ekki framkvæmd á fullnægjandi hátt vegna skerðinga.