Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Lenya Rún Taha Karim) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá 3. minni hluta velferðarnefndar en þar segir, með leyfi forseta:

„Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, fólst mikilvæg innleiðing á rétti fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs. Notendastýrð persónuleg aðstoð er grunnforsenda þess að fjöldi fólks geti lifað sjálfstæðu lífi í samræmi við 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Bráðabirgðaákvæði það sem til stendur að breyta hefur allt frá árinu 2018 sett kvóta á þessi sjálfsögðu mannréttindi. Fyrir utan þá skekkju sem felst í að kvótasetja mannréttindi, þá hefur framkvæmdin verið sú að kvótinn hefur aldrei einu sinni farið nálægt því að fyllast. Fjárveiting á fjárlögum hefur til þessa verið notuð sem takmarkandi þáttur, með þeim afleiðingum að núna við lok ársins 2022, þegar samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018 ættu að vera allt að 172 NPA-samningar í gildi, hefur aðeins verið gengið frá ríflega 90 samningum.

Sú breyting sem hér er lögð til undirstrikar að líta eigi á fjölda samninga í bráðabirgðaákvæðinu sem lágmark, frekar en að vanáætluð fjárveiting á fjárlögum hvers árs sé notuð til að setja mun lægra þak á fjölda samninga en kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu. Það er álit 3. minni hluta að sé það vilji meiri hluta Alþingis að kvótasetja mannréttindi, þá sé ótækt að þrengja þann kvóta enn frekar með metnaðarlausum lagaákvæðum eða vanáætluðu kostnaðarmati. Því er hér lagt til að breyta bráðabirgðaákvæðinu á þann veg að það kveði með skýrum hætti á um lágmarksfjölda samninga í staðinn fyrir hámark.“

Virðulegi forseti. Þetta er ekki stór breyting sem ég er að leggja til, þetta er ekki umdeild breyting sem ég er að leggja til og þetta er ekki erfið breyting sem ég er að leggja til. Þetta er einfaldlega lagatæknilegt atriði sem ég er að leggja til hér. Það er að í stað orðanna „allt að“ í báðum efnismálsliðum b-liðar 1. gr. komi: að minnsta kosti; og við báða málsliði bætist: að því gefnu að nægjanlega margar umsóknir berist.

Virðulegi forseti. Þetta er bara til þess að tryggja að það sé til nógu mikið fjármagn til að sjá til þess að allir þessir 172 samningar sem talað er um í þessu lagafrumvarpi geti komist á. Eins og ég vék að fyrr í ræðu minni þá er það ekki í boði að takmarka, að kvótasetja mannréttindi. Þetta var byltingarkennd breyting þegar NPA-samningakerfinu var komið á. Frá þeim tíma sem þessi lög voru samþykkt þá líður mér eins og við gætum verið komin svo miklu lengra og í miklu betri farveg hvað varðar notendastýrða persónulega aðstoð. Því miður er það ekki raunin, en er það ekki bara venjan að málefni fatlaðs fólks og þeirra sem eru verr staddir en aðrir í samfélaginu sitji bara einfaldlega á hakanum? Þetta er menningin sem ég hef tekið eftir síðan ég kom inn á þing, að það sé frekar verið að henda málum í framkvæmd og henda af stað málum sem eru kannski svona lagatæknileg og eru ákveðnum hópi í hag en eftir sitja þessi mál sem varða mannréttindi, sem varða lítinn en samt sem áður frekar stóran hóp fólks í íslensku samfélagi. Mér þykir það bara svo rosalega leitt.

Hér í dag höfum við verið að tala um almannatryggingakerfið, um lög sem varða almannatryggingar. Til að mynda byrjuðum við á eingreiðslunum fyrir öryrkja. Ég gerði þá athugasemd við eingreiðslumálið í 2. umr. og mun gera það aftur í 3. umr. að þetta væri bara afgreitt á síðustu stundu hér í fjárlögum. Það er náttúrlega óboðlegt, jafnvel þótt þetta sé ekki hluti af fjárlögum, ég veit það alveg, en að þetta sé í kringum þann tíma sem við afgreiðum fjárlögin. Mér finnst það einmitt sýna forgangsatriði og forgangsmál ríkisstjórnarinnar að það sé ekki bara einfaldlega lögfest í lögum að veita öryrkjum desemberuppbót; eins er með frítekjumarkið og skerðingarhlutfallið á tekjum öryrkja, sem er önnur breyting sem við höfum verið að ræða hér í þessari viku og þeirri síðustu. Ég fagna þeirri breytingu mjög mikið og hvet hæstv. félagsmálaráðherra að ganga enn lengra í þessum efnum, en þetta er gott fyrsta skref. Þá erum við að afgreiða þetta í lok árs en ég veit að þetta er hluti af heildarendurskoðun sem er að eiga sér stað akkúrat núna og ég fagna því að heildarendurskoðun sé að eiga sér stað yfir höfuð, af því að það er alls ekki sjálfsagt.

Sama með þetta frumvarp sem við erum hér að ræða, frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Þetta er bara framlenging á bráðabirgðaákvæði. Hvað höfum við gert þetta oft? Ég veit það ekki. Nú sit ég ekki alltaf á þingi en maður fylgist auðvitað með umræðunni og það gengur ekki að Alþingi, löggjafarvald Íslands, sé að framlengja bráðabirgðaákvæði trekk í trekk án þess að boða til stórtækra breytinga á lagabálknum sjálfum. Ég vonast til þess að ég sjái hæstv. ríkisstjórn ráðast í stórtækar aðgerðir til að breyta þessum lögum varanlega, ekki bara bráðabirgðaákvæðinu í lögunum heldur lögunum sjálfum, því að þetta gengur ekki svona. Við verðum bara í sömu stöðu á næsta ári þegar við sjáum að nógu margar umsóknir hafa borist og þörf sé á því að setja á fót fleiri samninga. Verður þetta bara staðan, virðulegi forseti? Ég vona ekki.

Svo er önnur hugmynd að setja lög og síðan reglugerð sem sækir stoð sína í þessi lög þannig að það þurfi ekki alltaf lagabreytingu á Alþingi. En ég ætla ekki að fara út í þessa sálma núna, það er bara umræða sem við tökum seinna, ekki undir nefndaráliti sem varðar þetta bara ekki neitt.

Virðulegi forseti. Til að fara aðeins nánar út í málefni fólks sem hefur setið á hakanum hjá þessari ríkisstjórn þá hafa bara til að mynda í dag verið fjölmargar fréttir skrifaðar um opnunartíma gistiskýla og að það liggi ekki alveg fyrir hvort opnunartími verði framlengdur. Við segjumst búa í velferðarríki. Hvers konar velferðarríki leyfir heimilislausu fólki bara að dúsa úti í 15 stiga frosti, forseti? 15 stiga frost; fólk gæti dáið í þessu veðri og við erum enn þá að ræða það fram og til baka hvort ætti að framlengja opnunartíma. Það náttúrlega gengur ekki en sýnir líka bara hvað heimilislaust fólk er í litlum forgangi hjá stjórnvöldum sem mér þykir rosalega miður. Ég er á þeirri línu að ef við fjárfestum í fólki sem er svo bágt statt þá séum við að fjárfesta í framtíðinni. Við erum að fjárfesta í því að þetta fólk fái hvata til að snúa aftur á vinnumarkaðinn, gefa af sér og borga sína skatta. Jafnvel þó að við ættum aldrei að smætta fólk niður í tannhjól atvinnulífsins þá er þetta samt sem áður hvati sem ég held að fleira fólk mætti tileinka sér og ég held að viðhorfið mætti breytast gagnvart þessu fólki. Eins og ég sagði þá viljum við meina að við séum velferðarríki en samt sem áður skiptir peningurinn meira máli en fólkið sem þarf á peningnum að halda. Af hverju erum við með þessi úrræði ef við getum ekki fullnýtt þau? Af hverju erum við með gistiskýli ef við getum ekki haldið þeim opnum þann tíma dags sem fólk þarf mikið á því að halda? Af hverju er þetta bara gistiskýli, af hverju er þetta ekki bara miðstöð, virðulegi forseti? Af hverju tökum við í sátt að heimilislaust fólk fari bara á bókasöfn eða bensínstöðvar og dundi sér þar í sjö tíma þangað til gistiskýlin opna aftur?

Nei, virðulegi forseti. Við erum 360 eða 370.000 manna þjóð. Við megum alveg við því að hafa gistiskýlin opin 24 tíma sólarhringsins. Það er bara staðreynd. Ég ætla ekki að fara út í neinar krónutölur eða áætla fjármagn sem myndi fara í þetta út af því að við erum ekki að fara að smætta fólk niður í einhverjar tölur á einhverju líkani sem varðar hagnað, gróða og tap. Það er ekki kerfið sem ég vil vera hluti af. Ég kom hingað á þing fyrst og fremst til að vinna fyrir fólk. Það er það sem ég held að meiri hluti fólks vilji gera sem situr hér inni á þingi. Ég held að við séum öll hér af góðum hug. Við meinum og viljum vel en þar stangast á hugmyndafræðin okkar og með hvaða hætti við getum náð þessu fram. Mér þykir miður að meiri hlutinn hafi tileinkað sér það að hlusta ekki á rök minni hlutans. Mér finnst persónulega, kannski er ég enn þá ung og þrjósk, að stjórnmál ættu að snúast um að hlusta á önnur sjónarmið, tileinka sér önnur sjónarmið og tileinka sér samkennd. Við erum greinilega ekki komin svo langt og kannski er það til of mikils ætlast af mér, virðulegi forseti, en kannski drepst þessi von í mér því fleiri ár sem ég verð í pólitík. Við sjáum bara til.

Hvað varðar nefndarálitið þá vona ég innilega að þessi breytingartillaga verði samþykkt, hún verði ekki bara felld inni í þingsal bara út því að hún kemur frá einhverjum fulltrúa minni hlutans. Eins og ég sagði, virðulegi forseti, er þetta ekki stórtæk breyting sem ég er gera. Þetta er ekki umdeild breyting og ekki erfið breytingartillaga. Þetta er lagatæknilegt atriði sem myndi gagnast stórum hópi fólks sem sækir sér þessa þjónustu og myndi ná að halda utan um þann hóp.

Þetta skiptir ekki miklu máli fyrir okkur hér á þingi, virðulegi forseti. Við ýtum bara á græna takkann og þá er þetta komið. En þetta skiptir öllu máli fyrir fólkið sem mun síðar nýta sér þessa aðstoð. Þetta er bara neyðarleg staða sem við erum sett í hér. Hvað segir það um löggjafarvaldið, virðulegi forseti, ef ég er hér að mæla fyrir nefndaráliti með breytingartillögu og mín fyrsta tilfinning fyrir þessu nefndaráliti með breytingartillögu er sú að það verði fellt? Það er eitt og sér ömurlegt, virðulegi forseti. Daginn þann sem stjórnmálamenn byrja að missa trú á starfinu sem þeir gegna og missa trú á því að þeir geti haft áhrif þá erum við komin á virkilega slæman stað í stjórnmálum og í lýðræði yfir höfuð, því lýðræði er ein af grunnstoðum samfélagsins og okkur ber að varðveita það með þeim hætti sem við getum. Ábyrgð okkar sem hér sitjum á Alþingi Íslendinga er svo ótrúlega mikil. Við erum fulltrúar þessarar þjóðar. Við erum kjörnir fulltrúar sem fengum beint umboð frá kjósendum og borgurum þessa lands og okkur ber að virða það.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta nefndarálit verði samþykkt og að það verði ekki fellt í þingsal bara af því að það kemur frá minni hluta.