Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Í fjáraukalögum eru ófyrirséð fjárútlát á árinu og eitt það merkilegasta hér, það sem er stærsti hluti þessara fjáraukalaga, er 14 milljarða heimild vegna lífeyrisauka LSR, sem breytingartillaga kom um núna fyrir 2. umr., ef ég man rétt, minnisblað frá ráðherra. Það er vegna þess að það er verið að breyta lífeyrissjóðakerfinu úr því að vera aldursskipt yfir í greiðsluskipt, svipað og þegar verið var að fara úr A-deild yfir í B. Samningurinn um þetta var gerður, ef ég man rétt, ég er ekki með minnisblaðið fyrir framan mig, árið 2016, og síðar um haustið var gerð breyting á lögum þar sem ríkið opnaði fyrir það að einstaklingar sem voru hættir að greiða til LSR fengju að komast inn í svokallaðan lífeyrisaukasjóð. Ekki var gert mat á þessu eða greining á kostnaðinum fyrir ríkissjóð við að fjölga einstaklingum sem áttu rétt samkvæmt þessu. Þeir áttu svokölluð geymd réttindi. Þetta var ekki metið á sínum tíma. Það voru mistök af hálfu ríkisins að gera þetta, að hleypa fleirum inn í kerfið þannig að einstaklingar sem voru ekki ríkisstarfsmenn gátu orðið ríkisstarfsmenn aftur og virkjað þessi réttindi, þessi geymdu réttindi. Kostnaðurinn við þetta var 14 milljarðar kr. Við fengum minnisblað um þetta núna korteri fyrir 2. umr. fjáraukalaga, ef ég man rétt, bara fyrir nokkrum vikum. Það er alveg klárt í mínum huga að það verður að rannsaka það nánar hvað átti sér stað í fjármálaráðuneytinu. Hvernig má það vera að Alþingi Íslendinga var ekki upplýst um þennan kostnað þegar þessi lög voru samþykkt?

Nú erum við að fá bakreikning upp á 14 milljarða kr. Það er algjörlega óásættanlegt. Við munum þurfa að samþykkja það að greiða þessa 14 milljarða í fjáraukalögunum. Vissulega er sanngirnissjónarmið á bak við þetta en það breytir því ekki að við verðum að geta lært af mistökum sem við gerum. Við getum borið þetta saman við Íslandsbankasöluna þar sem gerð voru mistök. Ég hef fært rök fyrir því. Ég get endurtekið þau. Fjármálaráðherra fær heimild til að selja bankann, það er ekki farið að stjórnsýslulögum með söluna. Það er ekki farið að lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, það er ekki gerð krafa um að lögaðilar upplýsi um raunverulegan eiganda þegar þeir gera tilboð, sem er sáraeinfalt, bara að hafa eina línu þar sem sagt er hver raunverulegur eigandi er. Það var ekki gert. Sama er í þessu máli. Undirbúningur var ónógur. Þetta mál var ekki undirbúið nægjanlega vel. Ekki var gerð nægileg greining á kostnaði. Það sama með Íslandsbankasöluna. Undirbúningurinn var ekki nógu góður. Ég get tekið þriðja málið, ÍL-sjóð. Það er reikningur upp á 450 milljarða kr. Það var mjög ágætt hjá hæstv. fjármálaráðherra að koma með skýrslu um það, leggja fyrir Alþingi og efna til umræðna um það hér í þinginu, en ekki að hann skyldi fara með þetta á blaðamannafund og segja hvað hann ætlaði að gera, þ.e. að slíta þessum bréfum sem myndi þýða eignarnám ef það væri gert með lögum. Það hafa komið lögfræðiálit, m.a. frá Róbert Spanó, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, nú prófessor við Háskóla Íslands og gestaprófessor við Oxford-háskóla. Það var örugglega greitt fyrir það lögfræðiálit eins og aðra vinnu sem hann og aðrir lögfræðingar inna af hendi en hann á líka starfsheiður að verja, stóran og mikinn starfsheiður. Í því áliti segir einfaldlega að ef hæstv. fjármálaráðherra fer að slíta skuldabréfunum frá 2004 þá sé það eignarnám og íslenska ríkið verði bótaskylt. Undirbúningur undir það mál var ekki nægilega góður.

Ég tel það vera skyldu mína í fjárlaganefnd og ég tel það vera skyldu allrar fjárlaganefndar að krefjast þess að þessi mál verði öll rannsökuð. Þessi lífeyrisaukasjóður, 14 milljarðar sem verið er að fara fram á og fjárlaganefnd samþykkti að verði greitt í fjáraukalögunum, langstærsti pósturinn þar — við eigum að hafa aga á þessu, krefjast þess að vita hvað átti sér stað nákvæmlega. Hvað fór úrskeiðis, hver voru mistökin? Ég vænti þess að hv. fjárlaganefnd, þar sem ég er fulltrúi fyrir Flokk fólksins og hef átt ágætt samstarf við aðra meðlimi, fari í þessa vinnu. Ég skora á alla fulltrúa í fjárlaganefnd að taka undir þessa beiðni. Þetta snýst ekki um pólitík. Þetta snýst um það að vinnubrögðin verði fagleg og við sem fjárveitingavald, æðsta stofnun landsins, gerum kröfu á stjórnsýsluna að vinna almennilega, undirbúa málin, greina þau almennilega. Hver er kostnaðurinn? Það var ekki gert, í engum af þessum þremur málum. Þetta eru 450 milljarðar ef bréfin í ÍL-sjóði fá að renna sitt skeið á enda, sem þau þurfa að gera, ef þau gera það ekki þá þurfum við að greiða bætur fyrir það. Ef dómstólar á Íslandi samþykkja það ekki þá verður farið með það til Strassborgar, til Mannréttindadómstóls Evrópu, og Ísland verður skuldbundið að þjóðarétti að greiða þetta. Það er veikt eignarréttarákvæði í 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og ég get ekki ímyndað mér að dómstóll líti ekki á það ákvæði og skuldabréfin séu ekki varin eignarrétti. Þetta mál er langstærsta málið í fjáraukalögunum í ár.

Annað mál sem er mjög stórt er sjúkrahúsþjónusta. Það er farið fram á það, á málefnasviði 23, sjúkrahúsþjónusta, að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri fái 9,6 milljarða vegna Covid. Ég hef gert athugasemdir við þetta og óskað eftir upplýsingum um það hvort það sé raunverulega vegna Covid en ekki einhverrar vanfjármögnunar. Við fengum greiningu á því að þetta væri vegna Covid, ekki kannski fullnægjandi. Það er erfitt fyrir mig sem fulltrúa í fjárlaganefnd að gagnrýna það. En það er mjög stór póstur, 9,6 milljarðar. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir Covid. Vissulega kom bylgja í upphafi ársins sem kostaði mjög mikið en að við skulum núna fá bakreikning upp á 9,6 milljarða vegna sjúkrahúsþjónustu vegna Covid — það er mjög há fjárhæð, svo að það sé sagt. Þetta er mjög stór póstur og mér finnst ég ekki hafa fengið nægilegar upplýsingar. Það er nú eitt við það að vera fulltrúi í fjárlaganefnd, mér finnst upplýsingar, sérstaklega úr heilbrigðiskerfinu, oft ekki vera nægjanlega góðar, sérstaklega ekki varðandi sjúkrahúsin. Gerð var breytingartillaga við fjárlögin um 750 milljónir vegna liðskiptaaðgerða. Ég óskaði eftir minnisblaði og vildi fá greiningu á því, ég á eftir að athuga í inboxinu hvort það sé komið, hvaða liðskiptaaðgerðir þetta væru. Þar var líka gerð breytingartillaga um 2 milljarða aukaframlag til sjúkrahúsa, það var til grunnrekstrar. Ég óskaði eftir því að fá greiningu á því hvaða grunnrekstur þetta væri, í hvað peningurinn ætti að fara. Ég hef ekki enn fengið þær upplýsingar. Það virðist vera að það snúist um undirfjármögnun, að bjarga því.

Annað mál sem er stórt í fjáraukalagafrumvarpi eru vextirnir. Við erum að greiða um 36 milljarða vegna vaxta og verðbóta. Það er verðbólga í ár og ríkið er að fara að greiða rúma 36 milljarða vegna verðbótaþáttarins. Það er nákvæmlega það sama og íslensk heimili eru að lenda í. Það kemur verðbólga, 10% verðbólga, þá leggst hún á höfuðstólinn. Þarna er íslenska ríkið að lenda í því að greiða 36 milljarða sem eru engir smápeningar. Þetta segir mér að við verðum sem lítið samfélag að sjá til þess að íslenska ríkið eða ríkissjóður sé ekki of skuldsettur. Það er mjög mikilvægt að við lækkum skuldir okkar sem allra mest. Ég hef fylgst með smáríkjum eins og t.d. Eistlandi. Þeir eru algerlega skuldlausir, mjög litlar skuldir, og það er mjög mikið öryggisatriði fyrir lítil samfélög. Íslenska hagkerfið er lítið hagkerfi, þetta er lítið samfélag, og það er mikilvægt að við séum ekki skuldsett. Við vorum ágætlega stödd fyrir Covid. Við gátum sett okkur í halla til að fjármagna það efnahagsáfall sem við urðum fyrir út af Covid af því að við vorum lítið skuldsett. Núna þurfum við aftur að safna í sjóði og greiða niður skuldir svo að við getum tekið á áföllum framtíðarinnar og byggt upp gott velferðarkerfi, góða innviði, góðar samgöngur, án þess að stór hluti af fjárlögum ríkissjóðs fari í vexti og verðbætur. Þetta er mjög mikilvægt. Við vorum líka ágætlega sett fyrir hrunið mikla 2008, við gátum tekist á við það af því að við vorum ekki mjög skuldsett. Þetta er stóra málið í heiminum í dag. Í Suður-Evrópu er það þannig að vextir á evrunni mega t.d. ekki hækka mikið. Þá mun evran sennilega hrynja af því að Suður-Evrópa mun ekki geta greitt af skuldum sínum ef vextir hækka mikið. Þannig er það. Vinur minn sem er hagfræðingur í Ósló var að benda mér á bók þar sem höfundur er einfaldlega að spá því að 29. október 1930, þegar kreppan mikla skall á, muni gerast aftur í framtíðinni, innan X ára, ég veit ekki hversu margra ára, ég veit ekki eftir hve mörg ár en það mun gerast af því að ríki heims eru orðin svo rosalega skuldsett. Það var nákvæmlega það sem gerðist í kreppunni miklu. Þá hrundi spilaborgin 29. október 1930. Þá hófst kreppan mikla. Það er verið að spá því núna út af skuldsetningu í heiminum og skorti á verðmætasköpun til að borga upp öll þessi lán sem búið er að lána núna, það er búið að dæla út peningum frá hruninu 2008 og svo líka í Covid. Það er ekki verðmætasköpun til að borga af þessum lánum. Hún er ekki til staðar á Vesturlöndum og þá mun koma skellur. Hvenær sem það verður — við getum lengt aðeins í þessu en við vitum ekki alveg hversu lengi — þá verður Ísland að vera vel í stakk búið, vera ekki skuldsett eins og önnur ríki. Við þurfum ekki annað en að sjá forsíðuna á The Economist, „Frozen Out“, eða frosin úti þar sem menn eru einfaldlega að spá því að Evrópa muni ekki ráða við orkukreppuna sem er í gangi í dag. Þýsk fyrirtæki geta ekki keppt með dýra orku. Fyrirtæki í Suður- Noregi geta ekki keppt, geta ekki verið í rekstri, meira að segja bakarí í Suður-Noregi getur ekki keppt við bakarí í Norður-Noregi út af rafmagnskostnaði. Það er ekkert sérstaklega bjart fram undan og ég tel að við eigum að búa okkur undir það og haga fjármálum okkar þannig að við undirbúum okkur. Undirbúum allar sölur vel, sölu á Íslandsbanka, lærum af mistökum okkar varðandi Íslandsbanka, ÍL-sjóð og lífeyrisaukasjóð LSR. Þannig getum við einungis lært og verið öguð til framtíðar. Þetta er grundvallaratriði. Verðmætasköpun á Íslandi er mjög mikil. Við erum svo heppin að við búum við miklar auðlindir. Góð staða er ekki vegna þess að Íslendingar hafi verið svo rosalega góðir að stjórna sér heldur vegna þess að við búum við gjöfulustu fiskimið í heimi, gríðarlega orku og einstaklega fallega náttúru. Ferðamenn eru farnir að koma hingað aftur og það er það sem keyrir hagvöxtinn áfram. Við í þessu húsi þurfum að sjá til þess að það sé agi á ríkisfjármálunum og það er skylda fjárlaganefndar og ég vona að við sjáum okkur hag í því að fara í þá vinnu að finna hvað gerðist varðandi ÍL-sjóð, lífeyrisaukasjóð LSR og líka varðandi söluna á Íslandsbanka.