Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina og sérstaklega áhugavert að heyra hvernig nýliði í fjárlaganefnd upplifir ferlið þar og þennan áþreifanlega skort á gagnsæi og hvað það gengur oft treglega að kalla gögn út úr kerfum hins opinbera, hvað það er erfitt að sækja allar upplýsingar sem við ættum að vera að byggja okkar ákvarðanir á. Ég nefni gjarnan sem dæmi að á 151. löggjafarþingi þá voru framlög til loftslagsmála tekin saman í rammagrein í fjármálaáætlun sem var síðan samþykkt sem fjármálaáætlun 2022–2026. Þar voru öll framlög til loftslagsmála bara á einum stað, sett upp í eitt myndrit, skýrt og aðgengilegt. Við ákváðum þegar fjármálaáætlun var lögð fram í vor að kalla eftir sambærilegum gögnum fyrir þá áætlun og fjárlaganefnd bað um þetta fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar í apríl. Svarið kom í nóvember og var engan veginn eins aðgengilegt og það var í áætluninni sjálfri tveimur árum áður. Þannig að það er ekki nóg með að það sé stundum erfitt að nálgast upplýsingarnar, stundum minnkar aðgengi að þeim.

Við 2. umr. var felld tillaga, sem var sameiginleg að mig minnir fjögurra stjórnarandstöðuflokka, um að fylla upp í gatið hjá sveitarfélögunum varðandi fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk sem var áætlað að hlypi á einum 5 milljörðum. Vegna þess að þessi tillaga var felld þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki legið upplýsingar fyrir í nefndinni um þetta. Af hverju voru það bara fulltrúar fjögurra stjórnarandstöðuflokka sem sáu þetta gat, sem ég hélt að við værum öll sammála um að væri til staðar? (Forseti hringir.) Nema stjórnarliðar studdu ekki þessa tillögu, felldu hana í þingsal.