154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda mig við orkumálin svona til að koma fólki á óvart hérna. Það hefur mikið verið rætt um rammaáætlun í tengslum við þetta og stöðuna á henni og þá rammaáætlun sem þingið afgreiddi hér fyrir einu og hálfu ári síðan og virkjunarfyrirtækjum svolítið kennt um að hafa ekki farið í þessar framkvæmdir. Ef þessi rammaáætlun er skoðuð þá sjá það allir sem fylgjast með þessum málaflokki að þetta er algjörlega lægsti samnefnari í virkjunarkostum. Hér eru fjórir vatnsaflskostir, einn af þeim er framkvæmanlegur. Síðan eru hér jarðvarmasvæði á Hengilssvæðinu, framkvæmdastopp Samfylkingarinnar undir forystu Samfylkingarinnar í Reykjavík í tíu ár. Forstjóri þessarar stofnunar sagði ítrekað við landsmenn þar til fyrir stuttu að það þyrfti ekkert meiri raforku á Íslandi en þeir eru loksins að fara af stað núna eftir að skipt var um forstjóra og mun það taka langan tíma. Síðan erum við með jarðvarmasvæði á Reykjanesi og vindorkukosti. Þannig að þetta er nú burðurinn sem kerfið hefur til að vinna úr.

Ég veit alveg hvaða stefnu Sjálfstæðisflokkurinn hefur og hvaða skref hann vill stíga í þessum málum. Við viljum að hér verði gripið til neyðarráðstafana, að það verði sett hér fram frumvörp sem tryggja eflingu flutningskerfisins strax á næsta ári milli Norður- og Suðurlands. Við þurfum að fara í ákveðin skref í vindorku, það er skammtímalausn sem kemur fljótt inn, og svo vatnsafl og horfa á vatnsaflskostina út frá þjóðaröryggi þegar kemur að þessum málum vegna staðsetningar allt of marga virkjana hér á suðvesturhorninu. Við eigum að stíga ákveðin skref, virðulegi forseti, í eflingu atvinnu og verðmætasköpun á grundvelli grænnar orku. Við eigum að stækka kökuna. Þá geta þingmenn hætt að tala hér um hin ógeðslegu stjórnvöld sem ekki vilja hækka skatta og gera meira og (Forseti hringir.) þá getum við haldið áfram þannig að það verði nóg til fyrir alla. (Forseti hringir.) Það verði byggð upp hér alvöruverðmætasköpun á grundvelli þessarar orku. Þá munum við hafa nóg(Forseti hringir.) fyrir alla til að moða úr.