154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í gær kynnti ríkisendurskoðandi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd stjórnsýsluúttekt sína á því hvernig til tókst við uppstokkun og fjölgun ráðuneyta í öðru ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, breytingar sem voru tilkynntar í lok nóvember 2021 og tóku gildi rúmlega tveimur mánuðum síðar. Eins og kunnugt er var fjölgað úr 10 ráðuneytum í 12, eða um tvö. Það sem mesta athygli vekur í þessari úttekt er að ekki liggur enn fyrir endurmat á viðbótarkostnaði vegna þessara breytinga. Einu upplýsingarnar sem liggja fyrir eru í þingskjölum í svari við fyrirspurn hv. fyrrverandi þingkonu Samfylkingarinnar, Helgu Völu Helgadóttur, þar sem sagt var að viðbótarkostnaðurinn næmi 1.770 millj. kr. og forsætisráðherra hefur staðfest að hann sé líklega um 2 milljarðar á kjörtímabilinu, jafnvel meiri. Í annan stað kemur fram í úttektinni að ekki hefur verið gerð nein tilraun til að meta sparnað eða hagræðingu vegna þessara breytinga. Í þriðja lagi má nefna að það verður ekki séð að markmiðum, háleitum markmiðum þessara breytinga, um að fella ósýnilega múra á milli ráðuneyta, efla samráð, samhæfingu og samstarf þeirra í milli hafi gengið eftir, a.m.k. er ekkert handfast um það í úttektinni að finna. Þá skortir yfirsýn yfir fjárhagslega stöðu ráðuneytanna. Stjórnarráðið var illa í stakk búið til að takast á við þessar breytingar og það virðist ýmislegt hafa komið mönnum í opna skjöldu, t.d. það að launaumhverfi væri ólíkt á milli ráðuneyta sem þó hefur verið kunnugt áratugum saman. Að auki hefur starfsánægja minnkað meðal starfsfólks ráðuneytanna.

Horfumst í augu við það, frú forseti, að þessar aðgerðir og breytingar á Stjórnarráðinu voru aðeins gerðar til þess að þjóna pólitískum hagsmunum þriggja stjórnarflokka svo hægt væri að mynda ríkisstjórnina eftir kosningarnar 2021.