131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:18]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að ferlið sem slíkt eins og það hefur snúið að fjárlaganefndinni hefur allt gengið eftir áætlun. Hins vega hefur verið bent á að eðlilegt væri að endurskoða þjóðhagsspána sérstaklega á þeim tímum sem við lifum, þar sem mjög margir óvissuþættir geta augljóslega haft gífurleg áhrif.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að vissulega bendir þjóðhagsspá Seðlabankans til að mikil áhrif komi fram á tekjuhlið frumvarpsins. En reynslan segir okkur, raunar er bent á það af hálfu Seðlabankans, að í sögulegu samhengi megi gera ráð fyrir því að aðhald fjárlaganna haldist ekki við slíkar aðstæður. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni.

Það er greinilega ekki vilji meiri hlutans, miðað við svör hv. þingmanns, að gefa sér tíma til að endurskoða þetta. Því er eðlilegt að spyrja hv. þingmann hvort við megum búast við því, þegar fyrir liggur endurskoðuð þjóðhagsáætlun af hálfu fjármálaráðuneytisins, að fjáraukalagafrumvarp sjái dagsins ljós mjög snemma á næsta ári.