131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:39]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var snautlegt svar hjá einum ráðherra ríkisstjórnarinnar sem er meira að segja hæstv. fjármálaráðherra.

En ég vil einnig inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi engar áhyggjur af þeirri stöðu sem fram hefur komið í spá Seðlabankans varðandi gengið. Gengisvísitala íslensku krónunnar er nú komin niður í 115 eða 113, eftir því hvenær á deginum það er skoðað. Forsendur fjárlagafrumvarps gera ráð fyrir gengi upp á 125.

Hefur hæstv. fjármálaráðherra engar áhyggjur af stöðu útflutningsgreinanna við slíkt gengi? Hækkun vaxta sem við vorum hér að ræða, hækkun stýrivaxta, nær aðeins til um 30% af því fjármagni sem er í umferð, fyrst og fremst fjármagns hjá einstaklingum og hjá minni fyrirtækjum sem þessi stefna bitnar harðast á? (Forseti hringir.) Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af þessu?