133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[11:55]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð og stjórnarandstaðan öll mun greiða þessu frumvarpi fullan stuðning þegar kemur að lokaatkvæðagreiðslu og það er vegna þess að við tökum undir orð aldraðra og öryrkja um að þetta sé þó spor í rétta átt.

Eins og við höfum greitt atkvæði um fyrr í morgun vildum við, stjórnarandstaðan, ganga lengra og láta bæði hækkanir á lífeyrisgreiðslum og eins að falla frá skerðingarákvæðum taka gildi strax um næstu áramót. Við náðum því ekki fram en við styðjum hvert eitt spor sem tekið er til styrkingar og til bóta fyrir aldraða og öryrkja og við munum greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar.