135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson út í skipan héraðsdómara. Þau mál eru mjög til umfjöllunar í samfélaginu núna, hv. þingmaður hefur tjáð sig opinberlega um þau og á honum má skilja að honum mislíki hvernig staðið var að þessari skipan. Hv. þingmaður er einnig með frumvarp, sem lýtur að skipan dómara, í vinnslu hjá allsherjarnefnd.

Í ljósi þess að í gær komu afar ósanngjarnar og ósvífnar yfirlýsingar frá hæstv. fjármálaráðherra í Kastljósi um þessi mál finnst mér eðlilegt að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson geri svolítið grein fyrir því hver hans staða er í málinu og hvort hann hyggist beita sér fyrir því að málið sem hann hefur flutt og er til meðferðar í allsherjarnefnd verði klárað. Það er alveg ljóst að forustumenn stjórnmálaflokkanna hafa allir nema forustumenn sjálfstæðismanna talið það gott mál þannig að það er meiri hluti fyrir því í þinginu ef hv. þingmaður beitir sér. Ég hef áhuga á að vita hvort hann vill það.

Ég hef líka áhuga á að vita hvort hv. þingmaður — sem ég veit að hefur skoðað þessi mál mjög náið, er lögfræðilega menntaður og hefur skoðað þetta vegna þeirra mála sem hann hefur flutt hér — sé sammála sjálfstæðismönnum sem verjast í þessu máli með því að segja: Okkar er valdið, ráðherrann ræður þessu alveg, hann getur valið hvern sem er, óháð öllu. Okkar er valdið, skítt með allt það sem aðrir segja.

Á meðan segir dómnefndin sem gefur hæfismat samkvæmt lögum allt annað. Hún segir að á þeim 16 árum sem hún hefur verið að störfum hafi ráðherra ávallt virt rökstudda niðurstöðu nefndarinnar og valið úr hópi þeirra sem taldir voru hæfastir. Það er ekkert athugavert við það þó að ekki hafi verið valinn sá sem var í fyrsta sæti, heldur einhver úr hópi þeirra sem voru hæfastir. Það er alls ekki gert núna. Nefndin segir að það sé alveg óhjákvæmilegt að ætla að veitingavaldinu séu einhver takmörk sett við val sitt, a.m.k. með hliðsjón af góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og raunar ekki síður sjálfstæði dómstólanna. Hún segir að það sé algjört einsdæmi sem við erum að upplifa núna á Íslandi. (Forseti hringir.)

Hvort er hv. þingmaður sammála dómnefndinni eða sjálfstæðismönnum sem segja að þeirra sé valdið, algjörlega óháð því hvað allir aðrir í samfélaginu segja?