135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:57]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að formaður þingflokks Samfylkingarinnar styður ekki skipan setts dómsmálaráðherra Árna Mathiesens í stöðu héraðsdómara. Þá vitum við það, og að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ætlar að beita sér fyrir því að ráðningarferli verði breytt. Hér er frumvarp um hæstaréttardómara en hv. þingmaður hefur opnað á það í umræðum að þar verði líka skoðaðir héraðsdómarar. Við höfum heyrt á máli þeirra sem hér hafa rætt, þ.e. allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins, að þeir vilja sjá breytingar. Það lítur vel út með að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nái árangri með að ráðningarferlinu verði breytt. Það er greinilega að myndast um það meiri hluti í þinginu.

Það var alveg dæmalaus ósvífni sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesens í gær í Kastljósinu þar sem hann réðst að nefndinni sem mat hæfi þeirra sem sóttu um og sagði að hún sjálf væri að veikja tiltrú almennings á dómstólum, nefndin kynni ekki þær reglur sem hún starfaði eftir og hefði gert mistök. Þetta eru geysilega alvarlegar ávirðingar.

Fyrst þingflokksformaður Samfylkingarinnar er nokkuð opinskár og talar gegn settum hæstv. dómsmálaráðherra spyr ég hann, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hvort hann sé sammála hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesen með að það sé dómnefndinni að kenna að þessi staða er komin upp og að nefndin kunni ekki sínar eigin reglur, viti ekkert eftir hvaða reglum hún eigi að starfa og hafi gert stórkostleg mistök.