138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal að maður á ekki að vísa í annað þegar verið er að ræða svo mikilvæg málefni sem fæðingarorlof.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki hafi verið önnur matarhola. Þá skulum við ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að hér var búið til framsækið, dýrt kerfi en því var ekki tryggt nægilegt fjármagn. Kerfið stóð ekki undir sér í góðæri enda var lögum breytt þannig að minna af tryggingagjaldi var látið renna í Atvinnuleysistryggingasjóð og við gjöldum þess núna, en meira látið renna í Fæðingarorlofssjóð til þess að standa undir því kerfi sem búið var til og þó dugði það ekki til.

Síðan vil ég segja varðandi töku feðra á fæðingarorlofi þá ber ég mikla virðingu fyrir karlmönnum og ég tel að lögin hafi ekki aukið á jafnrétti kynjanna af því að þeim hafi verið borgað fyrir að taka ábyrgð á börnum sínum, heldur af því að lögin gáfu þeim sterkara lögmæti á því að taka út þann sjálfsagða rétt að deila tíma með nýfæddum börnum sínum.