138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:49]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þetta síðasta, um hlutabæturnar. Við lítum svo á að hlutabætur séu vernd einstaklings gegn uppsögnum. Ég held að það sé ekki hægt að gera greinarmun á opinberum starfsmönnum og öðrum hvað þetta varðar, ég held að allir borgarar í samfélaginu eigi rétt á því að geta unnið hlutastarf á móti atvinnuleysisbótum ef það er valkosturinn við að missa ella vinnuna að fullu og öllu. Þess vegna erum við að gera tvennar breytingar í þessum lögum. Önnur er sú að gera ráð fyrir að hlutastarfið verði að vera að lágmarki 80%, þannig að þetta sé einn heill dagur, það sé eitthvað mælanlegt, það sé ekki hægt að hafa þetta 10%. Við gerum líka kröfu um að menn komi með ráðningarsamning til þriggja mánaða, þ.e. samkomulag um að þetta sé sameiginleg ákvörðun starfsmanns og launagreiðanda og gildi til þriggja mánaða í senn. Með því tryggjum við líka réttaröryggi starfsmannanna, að það sé ekki hægt að krefja þá um vinnu af því að það er búið að skrifa undir skjalfestan samning um að viðkomandi eigi ekki að vera í vinnu þennan dag. Með þessu erum við að reyna að draga úr svindlhættunni, auðvitað getum við aldrei varið nokkurt opinbert framfærslukerfi fyrir svindli en við megum ekki hanna kerfið fyrir svindlarana heldur fyrir þá stálheiðarlegu, 98% sem eru alltaf að reyna að nýta sér kerfið til góðs.

Aðeins eitt að lokum. Ég held að það sé mjög brýnt að við horfum á það í endurskipulagningu Stjórnarráðsins í vor, sem er að fara af stað í nefnd á vegum forsætisráðherra, horfum til þess að brjóta niður múrana milli ráðuneyta og gera Stjórnarráðið allt að einu starfsmannabatteríi þar sem starfsmenn flæða á milli, ráðningarvaldið sé tekið af hverjum ráðherra um sig og ráðið sé inn á einum stað og svo fái fólk að flæða á milli. Þá er það einföld ákvörðun í sjálfu sér um fjárveitingar til hvers ráðuneytis hversu marga starfsmenn hvert ráðuneyti hefur.