141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg ljóst að mig og hv. þm. Helga Hjörvar greinir mjög á um hvað sé skynsamlegt í skattstefnu og það hvort lágir eða eðlilegir skattar auki ekki verðmætasköpun. Það er einfaldlega þannig að ef við höfum ekki samkeppnishæfa skatta þá fáum við ekki öflugt atvinnulíf.

Við sjáum bara hvað er að gerast í því sem hæstv. ríkisstjórn kallar eðlilega innheimtu á sjávarútveginn í formi veiðiskatts, hverjar afleiðingarnar eru. Nákvæmlega þær sem varað var við í umræðum um það mál í vor. Nákvæmlega. Það er hægt að taka algjörlega þá umræðu og leggja hana á borðið í dag og segja: Það er þetta sem við vöruðum við, aukin samþjöppun, kemur verst við lítil og meðalstór fyrirtæki. Fulltrúi Landssambands smábátaeigenda, sem kom á fund atvinnuveganefndar um daginn, sagði okkur að þar væri stærsti hlutinn af sínu fólki að skoða það hvernig þeir kæmust út úr greininni í dag.

Jólasagan er ekkert grín og ekki heldur orð mín um þetta skattaskrímsli sem birtist hér alltaf á jólaföstunni og hefur gert núna. Og að segja síðan að aukningin í nóvember sýni okkur að þetta muni ekki hafa áhrif. Menn vita það vel sem þekkja til að salan á sér miklu lengri aðdraganda og það er það sem hefur verið gagnrýnt í þessum málum. Og að ferðaþjónustunni hafi verið kynnt þetta mál í haust — jú, vissulega en sú kynning fór þannig fram: Við ætlum að hækka virðisaukaskattinn á gistinguna og breyta afslættinum á bílaleigurnar. Við ætlum að setjast niður með ykkur til þess að leysa málin.

Fjárfestingar Icelandair hafa ekkert með þetta að gera. Icelandair er náttúrlega eitthvert mikilvægasta fyrirtæki landsins, stendur fyrir mjög öflugri og mikilvægri starfsemi og tryggir hér samgöngur og byggir starfsemi sína að mjög litlum hluta á ferðaþjónustunni á (Forseti hringir.) Íslandi. Stærstur hluti farþega fer hér í gegnum (Forseti hringir.) Ísland, fjárfestingarnar byggjast fyrst og fremst á þeirri miklu traffík og þeirri skynsemi sem hefur (Forseti hringir.) ráðið ferð í uppbyggingu á því merkilega fyrirtæki.