141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru áhugaverðar umræður sem áttu sér stað í andsvörum og ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann fjallaði um það jákvæða sem fælist í endurgreiðslu virðisaukaskatts við endurnýjun á húsnæði. Ég tek undir þær hugmyndir sem hann var með þar, að áhugavert sé að víkka út þá undanþágu eða þau ákvæði sem heimila endurgreiðslu á virðisaukaskatti.

Ég vildi einmitt í því ljósi og í samhengi við þá umræðu sem hv. þingmaður átti við hv. þm. Helga Hjörvar segja að í þessu eina máli virðist ríkisstjórnin hafa áttað sig á því að það að gefa afslátt af sköttum, endurgreiða virðisaukaskattinn, sé hvati til hagvaxtar, hvati til atvinnusköpunar, hvati til þess að fólk fari af stað í framkvæmdir sem það ella mundi ekki fara í vegna þess að virðisaukaskatturinn væri svo hár. Þannig má bæði koma fólki í atvinnu og örva hagvöxt innan lands. Ég hef spurt hvort hægt væri að gera mat á því hversu mikilvægur þessi þáttur væri. Ég vildi því spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki einmitt gott fordæmi í þessari hugsun, þ.e. að draga úr skattheimtunni.

Annað dæmi sem við framsóknarmenn höfum lagt ríka áherslu á í gegnum árin, og áttum held ég frumkvæði að upphaflega, var endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna töku erlendra kvikmynda hér á landi. Það hefur einmitt sýnt sig vera svo. Sumir telja að þetta sé opinn krani sem fjármunir streyma úr og virðast ekki átta sig á því að meiri hluti teknanna verður eftir í samfélaginu fyrir utan öll þau jákvæðu áhrif, margvísleg, á landinu öllu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að þetta sé jákvæð leið til að örva hagvöxt í landinu.