141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta yfirferð. Hann kom inn á mál sem er mér mjög hugleikið í þessari skattaumræðu allri, það er eitt að hækka skatta og hafa tiltölulega hátt skatthlutfall, þó að ég telji reyndar of langt gengið í því, en það er annað að skapa stöðuga óvissu. Í sumum tilvikum er jafnvel enn verra en háu skattarnir að það skuli vera viðvarandi óvissa um framhaldið. Hækka skattarnir meira? Verður skattkerfið enn þá flóknara á morgun en það er í dag?

Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að við síðustu talningu hafi komið upp 170 skattkerfisbreytingar hjá þessari ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Er hv. þingmaður sammála mér um að við getum frekar sætt okkur við ákveðnar skattahækkanir, sem sumar hverjar voru kannski óhjákvæmilegar eftir efnahagshrunið, ef þær eru hluti af einhverri framtíðarsýn, ef þær skapa einhvern stöðugleika þannig að menn sjái þróunina til einhvers tíma og þá frekar lækkun en hækkun ef forsendur skapast? Geta til dæmis fyrirtæki sem hugleiða að fjárfesta frekar sætt sig við að greiða heldur hærri skatta en þau gerðu á árum áður ef þau hafa þá einhverja vissu um í hvað stefnir og jafnvel von um að skattarnir lækki frekar en að þeir hækki og skattkerfið haldi áfram að flækjast?

Það virðist skorta alveg á skilning á áhrifum óvissunnar hjá þessari ríkisstjórn og það birtist ekki hvað síst í þessum skattahækkunum á ferðaþjónustuna. Hér kemur fulltrúi stjórnarliðsins upp, hv. þm. Helgi Hjörvar, og heldur því fram að þetta hafi ekki haft nein áhrif vegna þess að fjöldi ferðamanna hafi aukist núna í nóvember. Það er einmitt málið, það er fólk sem tók ákvörðun um að koma til Íslands löngu áður en farið var að ræða þetta og keypti ferðina hingað á verði sem tók mið af því sem fólk bjóst við 2011. Menn virðast halda að það sé verið að taka ákvarðanir bara dag (Forseti hringir.) frá degi og menn geti lagað sig að daglegum breytingum.