141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það er tvennt sem ég ætla að gera að umtalsefni og það er í beinu samhengi hvort við annað. Annars vegar er það 3. gr., tryggingagjald, og hins vegar 15. gr., fjársýsluskattur.

Fyrirtæki nota aðföng í starfsemi sína, þau geta verið að framleiða þjónustu eða áþreifanlega vöru, kex eða Cocoa puffs eða hvað sem er. Þessi aðföng hafa einhvers konar verð. Þó að það hljómi kannski ekki vel að kalla það aðföng er vinnuafl þar á meðal, þ.e. starfsmenn. Starfsmenn gegna yfirleitt mjög veigamiklu hlutverki í því að framleiða vöru og kannski sérstaklega þjónustu. Hinir liðirnir eru fjármagn, hráefni og annað slíkt.

Í b-lið 3. gr. er verið að hækka almennt tryggingagjald. Það er ekki til að bregðast við atvinnuleysi eða vanda á vinnumarkaði vegna þess að sá hluti tryggingagjaldsins sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs er lækkaður. Það er út af minnkandi atvinnuleysi og það minnkar vegna þess að fólk hverfur af vinnumarkaði og þar af leiðandi getur það ekki verið skráð atvinnulaust. Það er ekki vegna þess að störfum hafi fjölgað.

En aftur að b-lið 3. gr. þar sem talað er um hækkun á almennu tryggingagjaldi sem lið í viðbótartekjuöflun ríkissjóðs til að vega upp á móti auknum útgjöldum í lífeyristryggingum. Vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar verða lífeyristryggingar dýrari, þ.e. það þarf meira fjármagn í lífeyrissjóðina þegar stærri hluti þjóðarinnar verður gamall eða fer á örorku. Þetta tryggingagjald virðist komið til að vera. Kannski er það allt í lagi, kannski er allt í lagi að það gjald sé sérmerkt sem fer í lífeyristryggingar en þá skulum við ganga alla leið og lækka aðra skatta á móti og hafa þetta sérmerkt.

Í 15. gr. er aftur á móti verið að hækka þennan svokallaða almenna fjársýsluskatt sem er lagður á launagreiðslur fjármálafyrirtækja og tryggingafyrirtækja. Það er áætlað að þetta muni auka launatengdan kostnað fjármálafyrirtækja um 800 milljónir á ári. Hér er dæmi um tvenns konar skatta sem eru lagðir sérstaklega á aðföngin starfsfólk. Afsakið mig aftur fyrir að nota svona ósmekklegt orðalag en þetta er erfiðasta orðalag hagfræðinnar. Þessi hækkun á launum og launatengdum kostnaði leiðir til þess að minna er notað af þessum aðföngum. Það þýðir að færri störf eru í boði og þá er minna svigrúm til að hækka laun starfsmanna.

Þessar tvær greinar í frumvarpinu leiða sérstaklega til þess að færri störf verða til og þeim fækkar. Þetta virðast frumvarpssmiðir ekki hafa í huga og vegna þess að það er ekki talað sérstaklega um þetta í greinargerð með frumvarpinu vildi ég benda á þetta sem og það að afleiðingarnar geta orðið meira atvinnuleysi og lægri laun í landinu.