141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég undrast nálgun þingmannsins á þetta verkefni en vil spyrja hann um 15. gr. vegna ábendingar sem ég fékk frammi áðan. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að reikna þetta út sjálfur, það lítur sakleysislega út að hækka skatthlutfallið úr 5,45% í 6,75%, en er þetta ekki 20 og eitthvað prósent hækkun á þessum skatti? Maður veltir fyrir sér hvort það sé þá met í hækkun á einum skatti að fara þessa leið.

Mig langar að spyrja um annað í beinu framhaldi. Þarna er talað um 800 milljónir ef ég hef lesið þetta rétt og ég spyr: Hverjar verða afleiðingarnar? Kannski verða þær til góðs fyrir þá sem telja bankakerfið of stórt og að það þurfi að hagræða meira, og örugglega er hægt að færa rök fyrir því, en mun þetta ekki leiða til þess að störfum fækkar enn og aftur fyrir tilstilli þessarar ríkisstjórnar, t.d. úti á landi? Er ekki líklegt að fjármálastofnanir noti þessa leið í boði ríkisstjórnarinnar til að segja upp fólki, loka útibúum og ná fram hagræðingu í bankakerfinu? Kannski þarf að nást fram hagræðing en mér sýnist leiðin sem boðið er upp á fela í sér að skattlagningin verði til þess að fjármálastofnanir þurfi að hagræða í boði ríkisstjórnarinnar, ekki vegna þess að þær sjálfar hafi tekið ákvörðun um það.

Þá veltir maður fyrir sér hvort komin sé á enda sú hagræðing sem bankarnir hafa getað náð á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að ýmsar fjármálastofnanir telja sig geta hagrætt enn þá meira úti á landi. Ég hugsa að þær muni nota tækifærið núna þegar ríkisstjórnin hefur boðið upp á þessa leið, láti slag standa og fari í að loka útibúum þannig að landsbyggðarfólk þurfi að fara jafnvel hundruð kílómetra til að komast í fjármálastofnunina sína.