144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[16:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var að sjálfsögðu ánægjulegt að í efnahags- og viðskiptanefnd var ágætissamstaða um að greiða götu þessa máls þó að seint væri fram komið. Það verður auðvitað að nefna að það er svolítið sérstakt að það skuli hafa tekið allt fram í desembermánuð að átta sig á því að það var sólarlag í upphaflegum lögum sem sett voru 2009 um þetta framfaramál. Á þeim tíma var það nú, ef ég man rétt, í fyrsta lagi talið nauðsynlegt vegna þess að það væri síður ástæða til að óttast að Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, mundi reka hornin í það ef um tímabundna ívilnunarráðstöfun væri að ræða. Í öðru lagi þótti líklegt að einhverjar lagfæringar kynni að þurfa að gera á lögunum þegar reynsla væri komin á framkvæmd þeirra, eins og oft er, að nýbreytni af þessu tagi í lögum er samþykkt til tiltekins tíma í byrjun með það í huga að menn muni síðan í ljósi reynslunnar af framkvæmdinni e.t.v. gera á þeim einhverjar breytingar eða lagfæringar.

Það er skemmst frá því að segja að lögin hafa staðið svo vel tímans tönn að þær breytingar sem hér eru lagðar til eftir fimm ára gildi þeirra eru smávægilegar. Það gefur þar af leiðandi þessari lagasetningu á sínum tíma ágætiseinkunn. Áð vísu voru gerðar nokkrar breytingar á þeim á árinu 2011.

Það þarf ekki að eyða tíma í að fara yfir tilganginn og markmiðið með þessari lagasetningu. Hún hefur sannað gildi sitt og mætt þörf sem var til staðar og óuppfyllt í okkar landi lengi. Það eina sem er eftirsjá í er auðvitað hversu ótrúlega seint Íslendingar tóku upp fyrirkomulag af þessu tagi, sem orðið var alsiða í löndunum í kringum okkur og við vorum búin að keppa við í reynd á sviði nýsköpunar og þróunarstarfs í 15–20 ár. Beggja vegna Atlantshafsins er löggjöf af þessu tagi 15–20 ára gömul og ég þekki þess dæmi frá fyrstu hendi að álitleg fyrirtæki flúðu frá Íslandi til dæmis til Kanada vegna þess að þar var miklu hagstæðara umhverfi fyrir þróunarstarf og nýsköpun af þessu tagi. Ég hef gert mér það til gamans að minna á að það þurfti eitt stykki hrun og eitt stykki vinstri stjórn og eitt stykki kreppu til þess að menn drifu sig í að setja þessi lög en það var gert í annríki daganna á árinu 2009.

Þetta fór vel af stað og fjárhæðir í formi endurgreidds kostnaðar eða skattafslátta fóru strax á fyrsta ári í um hálfan milljarð kr. og eru núna komnar þó nokkuð á annan milljarð. Það auðvitað sýnir hversu gríðarleg þörf var á því að styðja við þennan geira, því að við verðum að ætla að velflestir hafi strax í byrjun sótt um en umfangið hefur sem sagt um það bil tvöfaldast á þessu tímabili, fjögurra ára tímabili sem við höfum upplýsingar um.

Breytingarnar sem hér eru lagðar til eru að flestu leyti til bóta og sjálfsagðar og nefndin féllst á þær með einni undantekningu, sem ég sömuleiðis fagna. Það komu fram mjög veikar röksemdir fyrir því að það væri skynsamlegt að hækka lágmarksfjárhæðina úr 1 í 5 millj. kr. Menn sáu ekki vandamálið sem væri því samfara að styðja við bakið á minni rannsókna- og þróunarverkefnum að því marki sem slík væru að sækja um inn í þetta ferli. Og þó svo að ýmiss konar stuðningur sé vissulega til staðar fyrir upphafsverkefni þegar þau eru að leggja af stað, svo sem í gegnum Nýsköpunarmiðstöð o.s.frv., þá er það ekki ástæða í sjálfu sér til þess að ýta út af borðinu verkefnum þar sem fjárhæðin er eitthvað undir 5 millj. kr. Enda kemur í ljós, kom í ljós við skoðun á gögnum, að ein 45 verkefni samtals á þessum tíma hefðu misst af stuðningi ef lágmarksfjárhæðin hefði verið þetta há.

Fyrirkomulagið er einfalt í framkvæmd. Ríkisskattstjóraembættið staðfesti að það væri í sjálfu sér ekkert vandamál fyrir þá þó að inni í bland væru minni verkefni sem uppfylltu þá öll skilyrði fyrir því að fá stuðning, væru vottuð af Rannís og legðu fram bókhaldsgögn endurskoðuð og annað í þeim dúr sem til þarf til þess að skattstjórinn geti á grundvelli gagna sem sanna útlagðan kostnað endurgreitt hann eða eftir atvikum veitt afslátt af tekjuskatti. Þar af leiðandi fagna ég því að niðurstaða nefndarinnar varð sú að hrófla ekki við þessari fjárhæð. Persónulega lét ég það sjónarmið í ljós að auðvitað hefði maður kannski sætt sig við að þessi upphaflega fjárhæð, 1 milljón, hefði tekið verðlagshækkunum, það hefði getað verið sjónarmið í sjálfu sér. Þá hefði fjárhæðin farið í 1,5–1,7 millj. kr., en ég tel í sjálfu sér bestu niðurstöðuna að vera ekkert að hrófla við þessum fjárhæðarmörkum og það er ágætt.

Eitt praktískt mál er þarna lagfært og það er einfaldlega að ríkisskattstjóri fái samkvæmt þessum lögum sérstaka heimild til þess að veita Rannís upplýsingar um niðurstöðu skattfrádráttar eða endurgreiðslna hjá einstökum fyrirtækjum, sem aftur þýðir að Rannís hefur miklu betri grunn til að byggja á mat á þróun mála og því hvernig aðgerðin er beinlínis að skila sér, því að sjálfsögðu er munur á umsóknum frá fyrirtækjunum og því þegar fyrirtækin leggja inn sín gögn til vottunar hjá Rannís og því sem kann að verða endanleg útkoma þeirra úr verkefnum. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að Rannís sem mikilvægur aðili í framkvæmdinni hafi þau gögn í höndum og það mundi til dæmis auðvelda þeim að leggja mat á það hvernig framkvæmdin gengur. Í raun og veru er það fram að þessu fyrst og fremst ríkisskattstjóraembættið sem býr yfir gögnunum um það hvernig endanlega til tókst á hverju ári og aftur í tímann litið. Sú breyting er því tvímælalaust til bóta.

Ég tek undir það sem formaður nefndarinnar, hv þm. Frosti Sigurjónsson, 2. þm. Reykv. n., svo allt sé nú haft á sínum stað, sagði í sambandi við skilgreininguna á fyrirtækjum í fjárhagsvanda. Það er ljóst að það kann að þurfa að fara yfir þessi lög aftur þegar hin rómaða tilskipun Evrópusambandsins um almennar hópundanþágur hefur verið tekin upp í EES-réttinn og þar með hér á landi, en ætlunin er að þetta regluverk falli inn í þann ramma sem þar er að koma, sem og þarf þá líka að taka hin almennu ívilnunarlög vegna nýfjárfestinga og skoða hvort ekki á að bæta inn í þau, miðað við það sem verið hefur til afgreiðslu hér á þinginu á þessum dögum, heimildum á nýjan leik til þess að styrkja nýfjárfestingarverkefni gagnvart viðfangsefnum eins og þjálfun starfsfólks, óháð staðsetningu fyrirtækjanna, þannig að það liggur utan við flokkun samkvæmt byggðakortinu, ef fyrirtæki eru sérstaklega að ráðast í verkefni sem eru á sviði umhverfismála í þágu minni losunar gróðurhúsalofttegunda eða annarra slíkra hluta, þannig að það þarf áfram að vinna á þessu sviði og þessi tvö verkefni eru þá fram undan á næstunni.

Að lokum vil ég nefna það sem ég sakna reyndar að ekkert er fjallað um í nefndarálitinu og ég hélt að hefði verið meiningin, að nefndin ræddi nokkuð um að það sem auðvitað væri hvað mest freistandi að gera í viðbót væri að lyfta aðeins þakinu á hinum endanum þannig að hægt væri að láta einhvern tiltekinn stuðning af hálfu stjórnvalda styðja betur við bakið á rannnsókna- og þróunarstarfi í millistórum og stórum fyrirtækjum. Það er alveg ljóst að þakið, eins og það er úr garði gert, takmarkar mjög þann stuðning sem er við starfsemi af þessu tagi inni í stærri fyrirtækjum ef eingöngu má endurgreiða 20% útlagðs kostnaðar eða veita afslátt af tekjuskatti sem því nemur vegna rannsóknarverkefna innan fyrirtækjanna upp á 100 millj. kr. eða aðkeypt verkefni upp á 150 milljónir, og síðan 20% af því. Þá sjá menn hvaða fjárhæðir það snýst um í beinum tölum. En þegar komið er upp í fyrirtæki af stærðinni Marel, Össur, CCP eða önnur slík þá deyr þessi stuðningur mjög hratt út vegna þess að þar er oft veltan í verkefnum af þessu tagi fleiri hundruð milljóna eða jafnvel milljarðar.

Nú hefur maður að sjálfsögðu skilning á því að menn vilja kannski hafa einhverjar bremsur eða einhver þök á því hversu mikil útgjöldin geti orðið, og það er vissulega annað viðhorf að beina skattalegum stuðningi af þessu tagi til rótgróinna og sterkra fyrirtækja, en engu að síður er það sannfæring mín að þetta væri mjög freistandi ráðstöfun, sérstaklega til að hafa þá einhverjar gulrætur fram að bjóða gagnvart fyrirtækjum sem jafnvel eru að vega og meta stöðu sína hér á landi í samanburði við að flytja starfsemi sína annað. Þetta eru auðvitað þau fyrirtæki sem við viljum alls ekki missa úr landinu og þurfum að huga að því að við séum sæmilega — (Gripið fram í.) Ja, þau fara nú ekki langt á meðan kvótinn er bundinn við Íslandsmið, við erum ekki í stórum vanda af því. En sum þessara fyrirtækja eru, eins og reynslan hefur sýnt okkur á undanförnum missirum, ákaflega hreyfanleg og við höfum séð mjög glæsileg spútnikfyrirtæki á sviði hugbúnaðargerðar eða nýrra tæknilausna hverfa úr landinu. Þau hafa að vísu oft verið keypt upp af stórum erlendum aðilum sem hafa þar með skilað frumkvöðlunum ágætisávöxtun á sitt strit og sína fjármuni. En það er alltaf eftirsjá að þeim úr landinu og við þurfum að huga að því hvernig við stöndum að vígi í þeirri samkeppni.

Það væri að mínu mati tiltölulega útlátalítið fyrir ríkið að búa út ofan á þakið það sem ég hef kallað kvist, sem sagt lyfta þakinu með einhverjum kvistum, og það mætti hugsa sér að það væri þannig að við endurgreiddum t.d. áfram kannski 10% af rannsókna- og þróunarkostnaði og þá upp að talsvert rýmri fjárhæðarmörkum en nú er. Segjum að við þrefölduðum þakið og greiddum 10% af því sem er ofan við 100 milljónir og upp í 300 í rannsókna- og þróunarkostnað innan fyrirtækjanna og þá kannski úr 150 í 400 milljónir eða eitthvað slíkt hjá fyrirtækjum ef um aðkeyptan kostnað er að ræða.

Ég hélt að meiningin væri að nefna þetta í nefndarálitinu, af því að nefndin var áhugasöm um að skoða þetta. Best hefði auðvitað verið ef við hefðum tekið á okkur rögg og klárað málið af því að við erum einu sinni að leggja til framlengingu á gildistöku þessara laga til fimm ára en auðvitað er hægt að gera það hvenær sem er á næsta ári til dæmis. Ég vek athygli á því að þó að þetta væri leitt í lög núna í byrjun næsta árs mundi það ekki valda neinum kostnaði hjá ríkinu hvað varðar skattafslætti eða endurgreiðslur fyrr en þá á árinu 2016. Og oftast er niðurstaðan af rannsóknum, sem t.d. samtök nýsköpunarfyrirtækja hafa gert, sú að ríkið kemur vel út úr þessum stuðningi sínum. Það er auðvelt að sýna fram á fjöldamörg dæmi þar sem ríkið hefur fengið það sem það hefur lagt af mörkum, jafnvel alla styrki af hvaða tagi sem er, allt frá því að hugmyndin fékk fyrst einhvern stuðning, t.d. hjá Nýsköpunarmiðstöð eða Impru við að gera fyrstu áætlanir og fyrstu útreikninga á verkefninu upp í gegnum styrki þar og síðan stuðning við rannsókna- og þróunarstarfið í gegnum endurgreiðslu kostnaðar, og innan örfárra ára er ríkið komið í bullandi plús vegna þess að þessir peningar eru auðvitað að uppistöðu til oftast vinnulaun sem þar með gefa af sér skatttekjur á öðrum sviðum.

Þess vegna ber ekki að líta svo á að þó svo að þessi útgjaldaliður, eins og hann er auðvitað sýndur í fjárlögum hverju sinni, sé núna upp á rúman milljarð kr. sé það ávísun á sambærilegt tekjutap, að það séu tapaðar tekjur sem ríkið hefði fengið ella, vegna þess að í fæstum tilvikum hefðu þessi umsvif orðið ef ekki hefði komið til stuðningur ríkisins. Þar af leiðandi er þetta svona staða þar sem báðir aðilar græða.

Ég sagði það einmitt á sínum tíma þegar við sáum hversu vel þetta tók við sér strax á fyrsta og öðru ári, og einhverjir voru að hafa af því áhyggjur uppi í fjármálaráðuneyti að þarna væru allt í einu komnar 500 milljónir og svo 750, að þetta væru eiginlega einu útgjöld ríkisins sem ég gleddist alveg sérstaklega yfir að væru að aukast því að þau væru mælikvarði á aukinn kraft í þessari starfsemi. Það á held ég alveg að fullu og öllu við.

Herra forseti. Ég vildi láta þessi sjónarmið koma hér fram í tengslum við afgreiðsluna á þessu máli. Ég er ákaflega ánægður með það að þessi löggjöf er að festast í sessi og montinn af því að eiga pínulitla hlutdeild í henni frá fyrstu tíð.