146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:00]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vil fá að gera lokaorð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur að mínum fyrstu orðum, um mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar kvenna. Það er alltaf brýn ástæða til þess að ræða sjálfsákvörðunarrétt kvenna, kynfrelsi kvenna. Fordómarnir í gegnum tíðina hafa látið á sér kræla eins og við þekkjum. Ef við rennum í gegnum sögu t.d. þessarar löggjafar sjáum við glöggt að forræðishyggja af því tagi kemur þar fram eins og hún gerir oft gagnvart konum og öðrum hópum sem skilgreindir hafa verið sem minni máttar á einhvern hátt. Það er því sérstakt fagnaðarefni að í þessari samantekt varðandi endurskoðun á heildarlöggjöf um þetta mál er meginþráðurinn að endurspegla nýja sýn á rétt kvenna og sjálfsforræði og að konur eigi rétt á að taka ákvörðun um eigin líkama og eigin framtíð. Það er grundvallarbreyting á því að það sé konan sjálf en ekki nefnd sérfræðinga eða einstakir sérfræðingar sem þekki betur til hennar lífs eða aðstæðna en hún sjálf.

Mig langar af þessu tilefni að tala örlítið um fordómana og hvað það er að ráða yfir eigin líkama. Við eigum að byrja á byrjuninni. Þess vegna er fagnaðarefni að tekin er sérstaklega fyrir umræða um kynlíf og kynfrelsi kvenna. Lagt var upp með að það ætti að ræða á hispurslausan og fordómalausan hátt. Ég vil taka undir það.

Ég mun koma aftur hingað til þess að fara yfir aðra þætti þessarar samantektar. En mig langar að enda á að segja að ég tók saman bók um kynferðislegar fantasíur kvenna fyrir nokkrum árum en þá kom upp í þeirri umræðu mjög mikið af fordómum (Forseti hringir.) um það hvernig konur ættu að haga sér. Til dæmis var ein sagan þar um að ein konan hafði haft kynferðislega fantasíu um að eignast barn, (Forseti hringir.) sem lýsir vel hvað við erum að kljást við hér. Þetta er allt af sama meiði. (Forseti hringir.) Við eigum að líta á það á sama hátt. Ég kem aftur til þess að klára mál mitt.