146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[17:01]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Sem stelpa eyddi ég talsverðum tíma á Ítalíu. Þó að við státum að mörgu leyti af betra velferðarsamfélagi hef ég oft hugsað síðan þá, ef maður leyfir sér að alhæfa, að það að eldast þar virðist um margt betra. Þar eiga aldraðir áfram sinn mikilvæga sess innan fjölskyldueiningarinnar og halda þar með reisn sem höfðingjar fjölskyldunnar með sjálfstæðan tilverurétt á eigin forsendum. Ég kann ekki skýringar á því af hverju fjölskyldugerðin er öðruvísi hvað þetta varðar hér á landi en þá er það verkefni okkar að búa svo um hnúta að kerfið veiti eldri borgurum annars konar reisn.

Eitt af því er, eins og frummælandi minntist á, mikilvægi sjálfstæðis. Það er mikilvægt að hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir lífi sínu, yfir þjónustunni sem maður þarfnast, yfir tekjum sínum. Þess vegna er til að mynda mikilvægt að stefna ríkisstjórnarinnar er að lífeyrisaldur hækki í áföngum svo aldraðir geti nýtt starfsgetu sína og reynslu með því að sveigjanleg starfslok verði meginregla og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað.

En því að eldast fylgja oft heilsubrestir. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að örugg og góð heilbrigðisþjónusta óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Sem dæmi má nefna að stefnt skal að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu, staða heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga verður styrkt og sérstakt átak verður gert til að stytta biðtíma eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Aukinn þungi verður settur í uppbyggingu í öldrunarþjónustu, sérstaklega heimahjúkrun og hjúkrunarheimili, og unnið verður að fjölgun rýma í dagþjálfun aldraðra og biðtími styttur.

Réttindi aldraðra hafa vissulega aukist, sem er vel. En enn er verk að vinna til að tryggja að höfðingjar litla samfélagsins okkar hér upplifi alla daga sem slíka.