146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir á kvennadeildum.

229. mál
[17:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Til að svara strax spurningu sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir beindi til mín í síðustu ræðu þá er ekki hækkun á einni þjónustu umfram aðra þegar kemur að kostnaðarþátttökubreytingunum, en hins vegar má skoða það betur hvernig nýtt kerfi gagnast mismunandi hópum, vegna þess að það er vissulega verið að færa til kostnað með áherslu á stórnotendur annars vegar og hins vegar börn, aldraða og öryrkja. Ég styð að við skoðum með kynjagleraugum hvernig sú breyting hefur áhrif.

Mig langar til þess að þakka aftur fyrir góða spurningu og góðar athugasemdir sem hv. þingmenn hafa komið með. Mig langar að svara hv. þm. Gunnari I. Guðmundssyni um það hvort ég styðji það að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu, læknaþjónustu annarri en lyflækningum úti á landsbyggðinni. Fleiri þingmenn voru á svipuðum nótum. Svarið er já, það vil ég. Það er vandamál víða úti á landi að manna sérfræðistöður jafnvel þótt þær stöður séu fjármagnaðar. Það vandamál er ekki auðleyst, en hins vegar eigum við ekki að gefast upp fyrir því og þurfum að bæta þjónustuna. Að einhverju leyti getur verið að við þurfum að gera það með aukinni samvinnu á milli stofnana og jafnvel landsvæða, en þá eigum við líka að vera óhrædd við að gera það.

Ég tek undir það að kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi er öflug og hana eigum við að nota. Við eigum sömuleiðis að nota skurðstofur á Suðurnesjum og annars staðar. Þær eru oft vannýttar, ekki vegna skorts á aðstöðu heldur vegna skorts á (Forseti hringir.) sérfræðingum, bæði læknum og hjúkrunarfræðingum, þannig að aftur getur samvinna stofnana verið lykilorð í þessu.

Ég þakka fyrir góða umræðu.