146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

bann við kjarnorkuvopnum.

53. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Þótt minna sé talað um kjarnorkuvopn í dag en þegar kalda stríðið var á hátindi sínum eru fáir hlutir sem mannkyninu stafar meiri ógn af. Í kjarnorkuvopnabúrum heimsins eru sprengjur sem geta útrýmt öllu lífi á jörðinni ótal sinnum. Stórveldin keppast við að þróa ný og öflugri vopn af þessu tagi. Á sama tíma er einnig verið að þróa það sem stundum hafa verið kölluð taktísk kjarnorkuvopn, vopn sem einhverjir láta sig jafnvel dreyma um að megi nota í staðbundnum hernaði. Líkurnar á að kjarnavopnum verði beitt, hvort sem er fyrir slysni eða að yfirlögðu ráði, hafa því aldrei verið meiri.

Í morgun hófust viðræður í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þess efnis að gera sáttmála sem bannar kjarnorkuvopn. Undirbúningur þessara viðræðna hefur staðið yfir í nokkur ár. Því miður hefur það verið svo að Ísland hefur ekki sýnt þeim mikinn áhuga. Það vakti til að mynda athygli á árinu 2015 þegar Ísland greiddi atkvæði gegn tillögu um slíkt bann, gegn tillögu, en eftir umræðu í fjölmiðlum, í utanríkismálanefnd og hér í þingsal var þeirri afstöðu breytt í hjásetu í seinni atkvæðagreiðslu, til þess eins að greiða svo aftur atkvæði gegn því að boðað væri til þeirrar ráðstefnu sem hófst í dag.

Vitandi það að þessar viðræður um bann við notkun kjarnorkuvopna ættu að fara fram dagana 27.–31. mars, og hófust í dag, fór þessi fyrirspurn sem ég mæli fyrir frá mér í dreifingu, um hvort Ísland tæki þátt, 24. janúar sl. Fyrirspurnin er fyrst á dagskrá í dag, sama dag og viðræðurnar hefjast.

Ég sé ekki betur en að hæstv. utanríkisráðherra sem og forverar hans praktíseri almennt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að gera alltaf eins og NATO. En ég fæ líka á tilfinninguna að þeim finnist kannski ekkert gaman að ræða þau mál hér heima. Það birtist að einhverju leyti í því hversu erfitt hefur verið að fá og tekið langan tíma að fá svör við fyrirspurnum, ekki bara þessari heldur öðrum sem ég hef lagt fram um kjarnorkuvopn.

Því vil ég spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Sendi Ísland fulltrúa sinn til þátttöku í viðræðum um samning um bann við kjarnorkuvopnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 27.–31. mars? Og í öðru lagi: Hverjar eru væntingar ráðherra til þessara viðræðna?