148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess að forsætisráðuneytið fer ekki með marga eiginlega málaflokka mun ég fjalla um fjármálaáætlunina almennt í minni innleiðingu hér, en svo kem ég örstutt að þeim útgjaldaliðum sem sérstaklega heyra undir forsætisráðuneytið í lok ræðu minnar. Það liggur fyrir að fjármálaáætlunin sem við ræðum hér er sóknaráætlun. Hún snýst um að styrkja samfélagslega innviði, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngukerfi og svo mætti áfram telja. Það liggur líka fyrir að ekki er öllum spurningum svarað í þessari fjármálaáætlun frekar en nokkru öðru pólitísku plaggi og í fjármálaáætluninni er boðað til að mynda virkt samtal við aðila vinnumarkaðarins um framhald mála hvað varðar sérstaklega samspil bótakerfa og skattkerfa með það að markmiði að ná aukinni sátt um uppbyggingu þessara kerfa í samfélaginu.

Þegar litið er á tölurnar kemur í ljós að fyrirhugað er að auka sérstaklega fjármuni sem renna til heilbrigðismála og velferðarmála. Þannig er fyrirhuguð sókn í heilbrigðismálum upp á 60 milljarða og 40 milljarða til velferðarmála. Þar eru vissir málaflokkar sem vega þyngra en aðrir, en eins og við þekkjum sem hér höfum verið hafa landsmenn forgangsraðað heilbrigðismálum efst þegar þeir hafa verið spurðir álits í skoðanakönnunum undanfarinna ára. Þess vegna leggjum við til verulega útgjaldaaukningu til þessa málaflokks, en um leið er fyrirhuguð stefnumótun á sviði heilbrigðismála til að skilgreina betur forgangsröðun í heilbrigðismálum. Þó má þegar greina ákveðna forgangsröðun og ég vil sérstaklega nefna áætlanir um að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga sem verið hefur meiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum.

Ég nefni framfærslu örorkulífeyrisþega, en þar eru fyrirhugaðar verulegar úrbætur og viðbætur í þessari fjármálaáætlun, og líka samráð við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um það hvernig megi útfæra þessar viðbætur sem ætlað er að stuðla að kjarabótum fyrir örorkulífeyrisþega þannig að það gagnist sem best.

Þegar við skoðum aðra málaflokka hlýt ég að nefna menntamálin þar sem við sjáum breytingu frá fyrri stefnu. Ekki er lengur fyrirhugað að skera niður til framhaldsskólanna eins og áður var ætlunin og það er sókn í háskólamálum.

Síðan hlýt ég að nefna umhverfismálin, en ég efast um að umhverfismál hafi nokkurn tímann verið stimpluð jafn rækilega inn og í þessari fjármálaáætlun. Við horfum á 35% aukningu, annars vegar til náttúruverndar og uppbyggingar innviða og hins vegar til loftslagsmála. Allir hér inni vita að við höfum ekki efni á að bíða með aðgerðir í loftslagsmálum.

Alls er gert ráð fyrir 338 milljörðum í innviðafjárfestingu. Er þetta ekki óábyrgt? munu einhverjir hér spyrja mig. Ég veit nákvæmlega hverjir það eru sem munu spyrja mig og ég svara því með gleði: Nei, þetta er ekki óábyrgt. Hvað sjáum við í efnahagsmálum? Við sjáum að hagvöxtur fer minnkandi, það er tækifæri núna til að koma með innspýtingu í innviði og um leið svara augljósu kalli almennings á uppbyggingu samfélagslegra innviða. Þetta hafa verið stóru málin, ekki bara í síðustu kosningum heldur líka þarsíðustu kosningum. Þetta hafa allir flokkar boðað með einum eða öðrum hætti, uppbyggingu samfélagslegra innviða. Allir flokkar hafa talað um heilbrigðismál. Allir flokkar hafa talað um samgöngumál. Alþingi samþykkti samgönguáætlun 2016 sem það fjármagnaði svo ekki en að sjálfsögðu þurfum við að horfa til þess að við fjármögnum þær hugmyndir sem við viljum taka sérstaklega fyrir á vettvangi Alþingis.

Þetta tel ég skynsamlega efnahagsstefnu en líka skynsamlega samfélagsstefnu. Það er verk að vinna í þessum samfélagslegu innviðum og síðan þurfum við að horfa til þess að á þessum tímapunkti er góð efnahagsstefna að auka innspýtingu og knýja þannig áfram hagkerfið.

Ég nefni að lokum þá málaflokka sem heyra sérstaklega undir forsætisráðuneytið af því að það kann að vera að einhverjir vilji spyrja út í þá. Það er þrennt sem ég vil nefna þar. Þar er fyrirhuguð veruleg aukning og hv. þingmenn kunna að spyrja sig í hvað hún renni. Jú, hún er sérstaklega fyrirhuguð í byggingu fyrir Stjórnarráðið. Sú ákvörðun var tekin í þingsályktun Alþingis í tilefni af 100 ára fullveldisins. Þá var samþykkt að ráðast í hönnunarsamkeppni fyrir Stjórnarráðsreitinn og byggja við Stjórnarráðshúsið. Hins vegar er hér lagt til, til að dreifa fjárfestingum betur á tímabilið, að seinka þeim framkvæmdum um eitt ár miðað við fyrri fjármálaáætlun. Þetta byggir á samþykkt Alþingis.

Gert er ráð fyrir auknum kostnaði við aðstoðarmenn ráðherra. Einhver kann að fórna höndum yfir því. Staðreyndin er sú að aðstoðarmönnum var fjölgað árið 2013 í takt við ákvörðun þeirrar ríkisstjórnar sem þá var að ljúka sínum verkum. Þeir hafa síðan verið jafn margir, en hins vegar hefur ekki verið gert ráð fyrir þeim í fjármálaáætlunum eða fjárlögum, heldur hafa aukagreiðslurnar verið teknar af fjáraukalögum. Ég vil miklu frekar að þetta sé uppi á borðum. Við vitum hvað þetta kostar og það er engin ástæða til að gera ekki ráð fyrir því í fjármálaáætlun. (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég nefna sérstaka fjárveitingu til umboðsmanns barna af því að það er áhugamál og markmið þessarar ríkisstjórnar að setja börn framar í alla okkar stefnumótun. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur farið hér yfir það en það gerum við líka í gegnum umboðsmann barna.