148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:55]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Maður getur auðvitað nálgast viðfangsefnin með ýmsum hætti út frá mismunandi sjónarhornum. Stundum mætti halda, þegar maður hlustar á ræður sumra þingmanna stjórnarandstöðunnar, að fremur sé verið að boða niðurskurð á næstu árum en hitt. Það er nú engu að síður staðreynd að gangi þessi fjármálaáætlun eftir þá munu útgjöld til málaflokka aukast, þá undanskil ég vaxtakostnað, um 132 milljarða frá árinu 2017 til ársins 2023 — 132 milljarðar að raunvirði. Hvar er nú mesta aukningin? Hún er í velferðarmál, í heilbrigðismál, í málefni öryrkja 17 miljarðar, í málefni eldri borgara aðrir 17 milljarðar og í fjölskyldumál 98 milljarðar af þessum 132. Svo koma menn auðvitað hingað upp og vilja halda því fram að það sé næstum því þannig að hæstv. forsætisráðherra og við sem styðjum þessa ríkisstjórn séum með beittan hníf á lofti. Fjarri því.

Það kemur hins vegar engum á óvart og allra síst hæstv. forsætisráðherra að ég hef líka áhuga á tekjuhliðinni og hef mínar skoðanir á henni. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að það kemur fram í fjármálaáætluninni að það sé til skoðunar að endurskoða tekjuskattskerfið, endurhanna það, með það að markmiði að hækka persónuafsláttinn verulega en hafa hann síðan stiglækkandi eftir því sem (Forseti hringir.) tekjur hækka. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hún (Forseti hringir.) fylgjandi þeirri meginhugmyndafræði sem þarna kemur fram og mun hún vinna að því að ná þessu fylgi?