148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 og ræðum núna sérstaklega þætti sem snúa að hæstv. umhverfisráðherra. Það eru auðvitað nokkur atriði sem ég hef áhuga á í málaflokkum hæstv. ráðherra.

Málefnasvið ráðuneytisins eru nokkur, náttúruvernd, skógrækt, landgræðsla, rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands, meðhöndlun úrgangs, varnir gegn náttúruvá, auk stjórnsýslunnar sjálfrar, en ég vil eins og nokkrir aðrir þingmenn sérstaklega minnast á nokkur atriði og byrja á skógræktinni. Í þessari þykku bók þar sem fram kemur tillaga til þingsályktunar er mjög lítið að finna um skógrækt og ekki í markmiðum í kaflanum um þetta, ekkert er þar um markmið til skógræktar. Ég sakna þess að engin markmið séu sett.

Undanfarin ár hefur skógrækt, þ.e. plöntun, minnkað ár frá ári frá því sem mest var. Nú er verið að planta þremur milljónum trjáplantna á ári sem er veruleg minnkun frá því fyrir tíu árum síðan. Eins og við tókum virkilega höndum saman upp úr 1990 og efldum skógrækt. Nú er þetta bara að koðna niður og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að auka við skógrækt eða ætlar hann að láta það gerast á sinni vakt að uppeldi trjáplantna leggist af og síðan þegar þarf að hefja starfið að nýju þá hafi mikilsverð þekking dofnað eða horfið? Ég bendi bara á að það tekur nokkur ár að undirbúa átak í þessum efnum. Aflið er nú til staðar og ekki seinna vænna að taka höndum saman í þessum málum.

Annað mál sem ég ætla að spyrja hann um er stofnun þjóðgarðs á hálendi Vestfjarða. Ég ætla að spyrja hann að því hvort búið sé að gefa eftir þetta markmið Vinstri grænna, hvort Vinstri grænir hafi gefist upp á því að stofna þar þjóðgarð í ósnortnu hálendi Vestfjarða.