148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra verður bara að fyrirgefa mér það að ég sé aðeins með smávægilega stríðni hérna, því að fyrir ári síðan var áherslan á menntamálin einmitt alveg kolómöguleg að mati þáverandi þingmanns, Lilju Alfreðsdóttur. En núna, 1% á ári og við erum komin í stórsókn. Það er auðvitað athyglisvert að hlusta á þessa miklu viðhorfsbreytingu sem hefur orðið, því að ég segi enn og aftur: Þetta eru sjálfsagt stærðir sem eru innan skekkjumarka í íslenskri fjárlagagerð, 1% á ári.

Þegar kemur að starfsnáminu hef ég í gegnum atvinnulífið í mörg undanfarin ár talað mikið fyrir mikilvægi starfsnámsins og mikið fyrir því hvernig við ætlum að ná til nemenda. En ég er engu nær þegar ég les fjármálaáætlun um það hvernig það eigi að takast. Mér finnst þetta vera endurtekið efni af því sem ekki hefur virkað og skilar einmitt þeim árangri að það er heldur að fækka í starfsnámi núna en fjölga. Það er ekki að nást fram sú breyting sem við höfum sóst eftir í starfsnáminu, það er mjög miður. Ég ætla ekki að kenna hæstv. ráðherra um það, það er algjörlega fjarri mér. En mér finnst við verðum að setja meiri metnað, vera skýrari um hvernig við ætlum að ná árangri í þessu.

Eitt af því sem ég hefði áhuga á að heyra eru sjónarmið ráðherra þegar kemur að rannsóknum á háskólastigi, sem er kannski einna helst þar sem við erum verulegur eftirbátur annarra þjóða þegar kemur að framlögum til háskólastigsins, og það eru einmitt framlög í rannsóknir. Það er svo að í dag er þorri þess fjármagns sem bundinn er í rannsóknir bundinn við Háskóla Íslands. Ég myndi vilja heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um hvernig eigi að auka fjármagn til rannsókna og hvort eigi ekki örugglega að tryggja öðrum háskólum líka aðgengi að slíku í gegnum einhvers konar samkeppnissjóði. Ég held að það skipti alveg gríðarlega miklu máli (Forseti hringir.) þegar kemur að rannsóknum á háskólastigi að við horfum á fjölbreytta flóru rannsókna (Forseti hringir.) og muna að það eru fleiri en einn háskóli hér og fleiri en tveir. Það er Háskólinn á Akureyri, (Forseti hringir.) það er Háskólinn í Reykjavík og fleiri mætti telja, sem þurfa líka að hafa aðgengi að slíku fjármagni.