148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallar eftir metum. Ég veit ekki betur en að við séum að setja met, bæði hlutfallslega og örugglega í upphæðum, þegar kemur að þróunarsamvinnu hvað Ísland varðar. Miðað við þær tölur sem ég sé aftur í tímann held ég að við séum án nokkurs vafa að gera það. Í framlaginu 2017 erum við með 0,29% miðað við að meðaltal OECD-ríkjanna er 0,31%. En gert er ráð fyrir að það verði 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022 sem er vel yfir meðaltali OECD.

Hv. þingmaður kallar eftir fjárframlögum í ýmis útgjöld, ég hef hlustað á hann í þinginu, en ég vek athygli á því að bara í þessari áætlun fer þetta árið 2018 úr 5,5 milljörðum í 8,3. Það eru ekki litlir peningar og þetta er gríðarlega mikil aukning. Ég segi í þessu eins og flestu öðru að það er alltaf hægt að gera betur en verkefni okkar núna er að sjá til þess að þessari miklu aukningu verði varið eins vel og mögulegt er. Þegar kemur að þróunarríkjunum, og við þurfum ekkert annað en að líta til okkar eigin ríkis, við vorum ein fátækasta þjóð á vesturhveli jarðar fyrir um 100 árum, getum við alveg hugað að því hvað það var sem gerði að verkum að við erum komin í þá stöðu sem við erum í í dag. Eitt er t.d. aðgengi að frjálsum mörkuðum sem er grundvallarforsenda. Eitt af því sem við leggjum áherslu á í okkar þróunarsamvinnu, er að aðstoða þróunarríki og leggja okkar af mörkum til að þau hafi aðgang að okkar mörkuðum sem er mjög mikilvægt.

Ýmislegt fleira mætti nefna. Það má alltaf gera betur í öllu en mér finnst ekki sanngjarnt þegar við erum að tala um þessar upphæðir, bæði hlutfallslega og upphæðirnar einar og sér, að menn geri lítið úr þeim. (Forseti hringir.) Það finnst mér ekki standast neina skoðun.