148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Í fyrirspurn um daginn til hæstv. dómsmálaráðherra vegna réttaröryggisáætlunar lýsti hún því yfir að hún vildi halda áfram með löggæsluáætlunina sem yrði væntanlega rædd næstkomandi haust. Það væri fróðlegt að ræða hana í ljósi umræðunnar um lögreglumenn og greininga á nauðsyn þess að fjölga þeim. En síðan voru samkvæmt því sem ráðherra sagði lagðar til hliðar fullnustuáætlanir, dómstólaáætlanir og ákæruvaldsáætlun. Það átti að samþætta þær inn í fjármálaáætlun. Þetta var gert m.a. á grundvelli laga um opinber fjármál sem er náttúrlega ekki rétt því það var einmitt farið af stað með réttaröryggisáætlun af miklum metnaði af þáverandi ráðherra 2015 og 2016 og yfirstjórn ráðuneytisins til að reyna einmitt að uppfylla þessi skilyrði og gera þetta af metnaði. Til þess var ráðinn sérstakur starfsmaður, yfirverkefnisstjóri verkefnisins, sem var Sigurður Tómas Magnússon.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að haldið verði áfram með þessar áætlanir, m.a. til að byggja upp traust á dómstólum og halda betur utan um ákæruvaldið. Ég vara við að þetta verði algerlega lagt til hliðar. Auðvitað munum við fylgjast vel með því.

Það er ein spurning og kannski ekki sanngjarnt af mér, komin eitthvað inn í nóttina, sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi Bjarkarhlíð, sem er ákveðið tilraunaverkefni varðandi þolendur ofbeldis, hvers kyns ofbeldis. Þetta er eiginlega hugsað sem svona „one stop shop“ fyrir þolendur hvers kyns ofbeldis. Þrjú ráðuneyti koma inn í þetta. Ég sé þess hvergi stað í fjármálaáætluninni né heldur, af því að þetta var til tveggja ára, hvernig eigi að halda áfram með þetta mikilvæga verkefni. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra viti eitthvað um þetta eða hvort þetta verði bara eitt af því sem ráðherra verði að forgangsraða með tilliti til þessa títt nefnda milljarðs til dómsmálaráðuneytis sem er óráðstafaður.