150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að fjalla um mál sem er í sjálfu sér ekki flókið, þó að það sé búið að flækja það mikið eins og kom fram áðan, og ætla ég ekki að fara að lengja umræðuna mikið. Ég verð þó að segja að mér líst ekki nógu vel á þá breytingartillögu sem nú er komin fram vegna þess að mér finnst, rétt eins og kom fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar rétt áðan, að verið sé að festa of mikið fjórir, fjórir, tveir skiptinguna. Það er verið að senda þau skilaboð til ráðherra að taka mið af því um leið og meiri hlutinn segist vera að veita nefndinni fullt frelsi til athafna. Það virðist alveg augljóst að engin vinna hefur átt sér stað hjá stjórnarflokkunum í þessu máli. Það er ekki bara að þeir hafi komið í veg fyrir faglega vinnu í nefndinni heldur virðist ekki hafa átt sér stað nein vinna við að hugsa út hvað sé best, hvorki í ráðuneytinu né meðal stjórnarflokkanna. Það að tala um að þetta sé bestun á lendingu, eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði áðan, er eiginlega grátbroslega vandræðalegt orðalag og sýnir algjöran vanmátt við að vinna mál af þessu tagi faglega í þinginu. Þetta er ekki flókið mál, þetta snýst um fæðingarorlofslöggjöfina og hvernig eigi að skipta henni. Hefði þetta mál komið á eðlilegum tíma inn í þingið væri ekki í gangi þetta kraftaklúður sem við erum að horfa upp á hérna þar sem ríkisstjórnarflokkarnir geta bara ekki með nokkru einasta móti komið sér saman um hvernig þetta eigi að vera.

Stjórnarandstaðan er ekki að þvælast fyrir, það er ríkisstjórnin sjálf. Besta lendingin í þessu máli virðist vera að taka það út úr þinginu og færa væntanlega einhverjum ráðherra haustsins það til úrlausnar. Ég vona, herra forseti, að ríkisstjórnin gyrði sig í brók og bjóði okkur ekki upp á viðlíka vinnubrögð á komandi vorþingi. Þetta er fullkomlega fáránlegt. Þetta er fæðingarorlofslöggjöfin en engin stjarneðlisfræði. Ég velti fyrir mér hvernig ríkisstjórnin tæklar önnur mál og mun flóknari sem hún er að fást við þessa dagana.

Mér finnst alvarlegt þegar ríkisstjórnin sýnir þjóðinni að henni fallast algjörlega hendur og hún varpar frá sér ábyrgð eins og hún gerir í þessu máli, að geta ekki klárað það þannig að þetta verði bara sett í frumvarp á vorþingi, klárað á haustþingi eða sett í frumvarp á haustþingi og klárað fyrir áramót án þess að það sé sett í reglugerðarheimild fyrir ráðherra að ákveða kannski einhvern veginn. Það er ekki gott að sýna þjóðinni hvernig ríkisstjórnin birtist á þessum lokadögum þingsins. Mér finnst ótrúlega dapurlegt hvernig ríkisstjórnin hefur birst í þessu máli.